Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. nóvember 2017 Matvælaráðuneytið

Arftaki sjómannsins - samkeppni um listaverk á gafl sjávarútvegshússins

Það eru margir sem sjá á eftir veggmyndinni af sjómanninum sem nýverið prýddi gafl sjávarútvegshússins. Frá því að mála þurfti yfir myndina af sjómanninum hefur Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samvinnu við SÍM Samtök íslenskra myndlistarmanna undirbúið samkeppni um nýtt listaverk á húsgaflinn og skal verkið hafa skírskotun í sögu sjávarútvegs á Íslandi.  

Verðlaun í samkeppninni eru 250 þúsund krónur og þegar úrslit verða tilkynnt verður haldin sýning á öllum innsendum tillögum á vef ráðuneytisins.

Tillögur skulu sendar á netfangið [email protected] fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 18. janúar 2018.

 

Nánar um samkeppni um gerð útilistaverks á austurgafl Sjávarútvegshússins á vegum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Ingangur:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið efnir til opinnar samkeppni um gerð útilistaverks á austurgafl Sjávarútvegshússins við Skúlagötu 4.

Verkið skal hafa skírskotun í sögu sjávarútvegs á Íslandi. Höfundum er frjálst að velja þá efnisútfærslu sem þeir telja henta hugmynd sinni best, en verkið skal hafa endingu í að minnsta kosti þrjú ár. Mikilvægt er að verkið taki tillit til umhverfisins, falli vel að svæðinu og þoli íslenska veðráttu.

Um samkeppnina gilda samkeppnisreglur Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM). Þátttaka í samkeppninni er opin öllum skapandi einstaklingum og hópum. Dómnefnd skipuð fulltrúum Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og SÍM mun velja eina af tillögunum sem berast til útfærslu. Vinningstillagan mun hljóta kr. 250.000,- í verðlaun. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið mun standa straum af kostnaði við gerð og uppfærslu verksins að hámarki kr. 2.000.000,-.

Tillögum skal skilað inn fyrir kl.16:00 fimmtudaginn 18. janúar 2018. Niðurstaða dómnefndar verður kynnt í síðasta lagi 23. febrúar 2018 og sýning á tillögum sem bárust í keppnina haldin að því loknu á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Samkeppnin er auglýst í gegnum netmiðla og póstlista SÍM.

Keppnislýsing þessi skal höfð til viðmiðunar varðandi skil á tillögum og fyrirspurnum í samkeppnina.

Keppnislýsing og skilmálar

1. Verkefnið

Kallað er eftir tillögum að verki á austurgafl Sjávarútvegshússins að Skúlagötu 4. Verkið skal hafa skírskotun í sögu sjávarútvegs á Íslandi. Æskilegt er að verkið falli vel að umhverfi sínu, en það mun verða eitt af kennileitum miðbæjarins og hluti af margbreytileika svæðisins. Höfundar mega nota hvaða efni sem þeir telja að henti hugmynd þeirra best, en verkið skal hafa endingu í að minnsta kosti þrjú ár. Þeir þættir sem dómnefnd mun skoða sérstaklega eru almenn listræn gæði, frumleiki, raunhæfi og hversu vel verkið fellur að þema verkefnisins.

Skúlagata 4 er sögufrægt hús en þar hefur ýmis mikilvæg starfsemi verið til húsa í gegnum tíðina. Húsið var reist árið 1961 eftir teikningum Halldórs H. Jónssonar arkitekts. Húsið er stundum kallað hús Fiskifélags Íslands og þar var lengi til húsa Ríkisútvarpið, meðan það var eina útvarpsstöð landsmanna. Þaðan bárust á öldum ljósvakans allar helstu fréttir og lýsingar frá viðburðum innanlands og utan. Nú er í húsinu Hafrannsóknarstofnun, Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (undir hatti Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins).

Um er að ræða tímabundið verk sem mun prýða austurgafl hússins í að minnsta kosti þrjú ár. Fjárhæðin sem verja á til framkvæmdar og uppsetningar verksins er að hámarki kr.  2.000.000,-. Innan þess fjárhagsramma skal rúmast allur kostnaður við verkið; undirbúningur, efni, tækjabúnaður, framkvæmd og aðkeypt vinna auk höfundargreiðslu.

2. Þátttökuheimild

Þátttökuheimild hafa allir skapandi einstaklingar og hópar.

3. Trúnaðarmaður

Sem trúnaðarmaður og tengiliður milli útboðsaðila og dómnefndar annars vegar og þátttakenda hins vegar, hefur verið tilnefnd Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir.  

4.  Keppnisgögn

Gögn vegna samkeppninnar eru aðgengileg á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

  1. Keppnislýsing
  2. Teikning af austurgafli Sjávarútvegshússins með málsetningum
  3. Teikning af austurgafli Sjávarútvegshússins án málsetninga

5. Fyrirspurnir

Fyrirspurnir má aðeins senda trúnaðarmanni samkeppninnar. Allar fyrirspurnir skulu vera skriflegar og hafa borist trúnaðarmanni eigi síðar en 4. janúar 2018. Fyrirspurnir sendist á netfangið: [email protected] Fyrirspurnir ásamt svörum verða birtar nafnlaust á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins jafnóðum og þær berast. Ekki verður tekið við fyrirspurnum eftir 4. janúar 2018. 

6. Tillögur

Keppnistillaga skal samanstanda af eftirfarandi:

  1. Teikningum, ljósmyndum eða tölvuteikningum af listaverkinu sem sýnir afstöðu þess, stærð og staðsetningu á veggnum sem um ræðir, á að hámarki þremur A3 síðum.
  2. Greinagerð um hugmyndina að baki verkinu, efnisval, uppbyggingu og útfærslu á einu til þremur A4 síðum.
  3. Kostnaðaráætlun vegna gerðar og uppfærslu verksins á einni A4 síðu. 
  4. Tímaáætlun vegna gerðar og uppfærslu verksins á einni A4 síðu.
  5. Nafnablað þar sem fram kemur nafn höfundar, kennitala, heimilisfang og símanúmer.
  6. Öllum gögnum skal skilað rafrænt. Athugið að nafn höfundar má hvergi koma fram á innsendum gögnum, að nafnablaðinu undanskildu.
  7.  Hámarksstærð fylgiskjala er 20 MB samtals.

 Tillögu telst ekki skilað nema borist hafi staðfesting á móttöku frá trúnaðarmanni.

7. Skil keppnistillagna og skilafrestur

Keppnistillögum skal skilað til trúnaðarmanns á netfangið [email protected]

Trúnaðarmaður undirbýr tillögurnar fyrir dómnefnd. Hann gefur hverjum höfundi dulnefni, sex stafa talnarunu, sem hann merkir öll gögn viðkomandi höfundar með. Trúnaðarmaður einn veit rétt nafn nafn höfundar, kennitölu, heimilisfang og símanúmer.

Hver höfundur má skila inn einni tillögu eða í mesta lagi tveimur tillögum. Fleiri en einn höfundur geta sameinast um að skila inn tillögu að einu verki.

Tillögurnar skulu sendar á netfangið [email protected] fyrir kl. 16:00 fimmtudaginn 18. janúar 2018.

Með afhendingu á tillögu í samkeppnina telst þátttakandi samþykkja keppnislýsinguna og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar. Farið verður með öll gögn sem trúnaðarmál.

8. Dómnefnd

Í dómnefnd sitja þrír fulltrúar skipaðir af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og

og tveir fulltrúar skipaðir af SÍM.

Stefnt er að því að dómnefnd ljúki störfum um miðjan febrúar og að niðurstöður hennar verði kynntar í síðasta lagi 23. febrúar 2018.

9. Sérfræðiálit
Dómnefnd er heimilt að leita eftir áliti utanaðkomandi sérfræðinga varðandi einstök atriði telji hún þess þörf.

10. Úrslit

Dómnefnd fer yfir allar tillögur sem uppfylla skilyrði keppnislýsingar. Dómnefnd skilar skriflegu áliti með rökstuðningi fyrir vali á vinningstillögu. Álitið verður sent um hendur trúnaðarmanns til allra þátttakenda. Niðurstaðan er kynnt verkkaupa og stjórn SÍM auk þess sem úrslit samkeppninnar eru kynnt í fjölmiðlum. Dómnefnd áskilur sér rétt til að velja enga af innsendum tillögum ef hún telur enga koma til greina til útfærslu.

11. Sýning

Haldin verður sýning á öllum innsendum tillögum á vef Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eftir að úrslit liggja fyrir.

12. Samkeppnisreglur

Um keppnina gilda samkeppnisreglur Sambands íslenskra myndlistarmanna. Keppnislýsing þessi hefur verið samþykkt af stjórn SÍM og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

13. Úrvinnsla

Eftir að dómnefnd hefur lokið störfum og komist að þeirri niðurstöðu að velja eitt verk til útfærslu birtir hún niðurstöður sínar. Að því gefnu að verkkaupi sé sáttur við niðurstöðu dómnefndar gengur hann til samninga við höfund vinningstillögunnar og undirbýr útfærslu og framkvæmd verksins ef um semst við höfundinn. Gert er ráð fyrir að samningum við höfund vinningstillögunnar verði lokið í mars 2018.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira