Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. nóvember 2017 Forsætisráðuneytið

Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs H. Haarde gegn ríkinu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur kveðið upp dóm í máli Geirs H. Haarde gegn íslenska ríkinu en dómurinn var einnig birtur á vef dómstólsins. Geir lagði fram kæru á hendur íslenska ríkinu árið 2012 fyrir brot gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveða á um réttláta málsmeðferð fyrir dómi og skýrleika refsiheimilda vegna dóms Landsdóms sem kveðinn var upp sama ár. Íslenska ríkið var sýknað af kröfum Geirs.

Geir kvartaði bæði yfir málsmeðferð í aðdraganda þess að ákæra á hendur honum var gefin út af Alþingi og málsmeðferð fyrir Landsdómi. Þá kvartaði hann yfir því að sakfelling hans hafi byggst á refsiheimild sem ekki hafi uppfyllt kröfur um skýrleika.

Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekkert í málsmeðferð rannsóknarnefndar Alþingis, þingsins eða saksóknara Alþingis hafi leitt til þess að málsmeðferðin fyrir Landsdómi teldist ekki réttlát. Þá segir í niðurstöðu dómsins að Landsdómur hafi verið sjálfstæður og óvilhallur í skilningi mannréttindasáttmálans og sú staðreynd að Alþingi hafi kosið dómara leiði ekki að sjálfu sér til þess að þeir teljist ekki sjálfstæðir og óvilhallir. Þá taldi dómstóllinn jafnframt að ákvæði stjórnarskrárinnar og laga um ráðherraábyrgð varðandi skyldu Geirs að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni vera skýr og Geir því geta séð fyrir að háttsemi hans gæti skapað honum refsiábyrgð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum