Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. nóvember 2017 Félagsmálaráðuneytið

Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn ofbeldi og þörf gerenda fyrir aðstoð greind

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur óskað eftir tilnefningum í starfshóp sem falið verður að kortleggja og skilgreina þörf gerenda í ofbeldismálum fyrir meðferð og einnig þeirra sem taldir eru í áhættuhópi sem mögulegir gerendur. Hópnum er einnig ætlað að efla forvarnir og fræðslu til að fyrirbyggja ofbeldi.

Velferðarráðuneytið hefur undanfarin misseri leitt vinnu við mótun áætlunar um aðgerðir gegn ofbeldi í samfélaginu. Að vinnunni hafa komið fulltrúar félags- og jafnréttismálaráðherra, heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra. Meðal þess sem þessi vinna hefur leitt í ljós er þörf fyrir fjölbreyttari meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum. Í ljósi þessa og vegna umræðunnar í samfélaginu að undanförnu um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni hefur félags- og jafnréttismálaráðherra ákveðið að skipa fyrrnefndan starfshóp. Hópnum er ætlað leggja fram tillögur um viðeigandi úrræði fyrir gerendur og hvernig megi efla forvarnir og fræðslu.

Starfshópurinn verður skipaður fulltrúum frá velferðarráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu, Embætti landlæknis, Bjarkarhlíð, Fangelsismálastofnun, Landspítalanum, Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og frá Heimilisfriði sem er meðferðarúrræði fyrir gerendur í ofbeldismálum. Hópnum er ætlað að hafa samráð við velferðarþjónustu sveitarfélaga og aðra sérfræðinga á þessu sviði eftir atvikum.

  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira