Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. desember 2017 Utanríkisráðuneytið

Jafnréttismálin sett á dagskrá í alþjóðaviðskiptum

© WTO/ Cuika Foto - mynd

„Með því að setja sér skýr markmið um jafnrétti í viðskiptastefnu, geta ríki gert konum betur kleift að taka þátt í alþjóðaviðskiptum, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á blaðamannafundi í tengslum við 11. ráðherrafund Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, í Buenos Aires í gærkvöldi. Tilefnið var afhending yfirlýsingar 120 aðildarríkja WTO um samstarf til að vinna að aukinni efnahagslegri valdeflingu kvenna og auka þátttöku kvenna í alþjóðaviðskiptum.

Ísland hefur beitt sér fyrir því að koma jafnréttismálum á dagskrá í umræðu um alþjóðaviðskipti innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og styður meirihluti aðildarríkja WTO yfirlýsinguna. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Yvette Stevens, sendiherra Sierra Leone, og Arancha Gonzáles, framkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptamiðstöðvarinnar (ITC), afhentu Susönu Malcorra, formanni 11. ráðherrrafundar WTO, yfirlýsinguna í gær í viðurvist ráðherra ríkjanna sem að henni standa og framkvæmdastjóra WTO, Roberto Azevêdo.

„Með yfirlýsingunni setjum við jafnréttismálin á dagskrá þegar rætt er um viðskiptamál. Til þessa hafa jafnréttismálin að mestu staðið utan málaflokksins en það er þörf á að auka viðurkenningu á því að aukin þátttaka kvenna í alþjóðaviðskiptum geti stuðlað að aukinni valdeflingu kvenna og þannig dregið úr fátækt og aukið almenna velsæld í heiminum. Ríkin ætla að vinna saman til að greina betur hvaða hindranir standa í vegi fyrir konum í viðskiptum og takast á við þær, m.a. í mótun viðskiptastefna, til að gera konum betur kleift að láta til sín taka á vettvangi alþjóðaviðskipta,” segir Guðlaugur Þór.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira