Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. janúar 2018 Forsætisráðuneytið

Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna

Greint var frá fyrirhugaðri stofnun ungmennaráðs Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á ríkisstjórnarfundi í morgun. Forsætisráðuneytið mun óska eftir umsóknum í ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna 31. janúar nk. og mun sérfræðingur í þátttöku barna og ungmenna hjá UNICEF á Íslandi halda utan um skipulag og vinnu ráðsins.

Eitt af meginstefum Heimsmarkmiðanna er samvinna milli ólíkra hagsmunaaðila, þ.á m. ungmenna, við innleiðingu markmiðanna. Í ljósi þess, og einnig 12. og 13. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveða skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða, var ákveðið að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að framfylgja skuli ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu.

Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna mun samanstanda af tólf fulltrúum, frá öllum landshlutum, á aldursbilinu 13-18 ára. Hlutverk ráðsins verður að fræðast og fjalla um Heimsmarkmiðin ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið mun jafnframt veita stjórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn Heimsmarkmiðanna, aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiðanna.

Meginmarkmið ungmennaráðsins verður að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sinna sem og samfélagsins í heild sinni. Ungmennum er með þessum hætti gefinn vettvangur til að vekja athygli á Heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun og skapa þannig jafningjum tækifæri til að láta rödd sína heyrast um fyrrgreind málefni.

Forræði, utanumhald og eftirfylgni með Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna hér á landi er á hendi verkefnastjórnar sem leidd er af forsætisráðuneytinu í nánu samstarfi við utanríkisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, velferðarráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Hagstofu Íslands.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira