Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. febrúar 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um líknarmeðferð á landsbyggðinni

Formaður hópsins skilar ráðherra skýrslunni - myndVelferðarráðuneytið

Starfshópur sem falið var að gera tillögur að skipulagningu líknar- og lífslokameðferðar í heilbrigðisumdæmum Vestfjarða, Austurlands og Norðurlands hefur skilað heilbrigðisráðherra skýrslu með tillögum sínum.

Starfshópurinn sem stofnaður var í október 2016 fékk það hlutverk að taka saman yfirlit yfir þá þjónustu sem stendur til boða sjúklingum á starfssvæðum heilbrigðisstofnana í þessum umdæmum sem eru í þörf fyrir líknar- og lífslokameðferð, greina núverandi þörf fyrir slíka þjónustu á svæðinu, móta tillögur um skipulag og framkvæmd hennar og gera kostnaðaráætlun á grundvelli tillagnanna.

Í grófum dráttum er niðurstaða starfshópsins sú að líknarmeðferð og lífslokameðferð sé veitt í einhverjum mæli á heilbrigðisstofnununum þremur í þessum umdæmum, að sérhæfða þjónustu á þessu sviði skorti, að veruleg þörf sé fyrir þessa þjónustu á starfssvæðum stofnananna og að nauðsynlegt sé að efla hana.

Dr. Elísabet Hjörleifsdóttir, formaður starfshópsins kynnti Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögurnar á fundi í velferðarráðuneytinu í dag. Svandís sagði mikilvægt að fá í hendur vandaða vinnu hópsins með tillögum um hvernig megi byggja upp og efla þessa mikilvægu þjónustu á landsbyggðinni: „Nú legg ég áherslu á að taka næstu skref með því að fara vel yfir tillögurnar og skoða hvernig best megi hrinda þeim í framkvæmd til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.“ 

Sjúkrahúsið á Akureyri fái miðlægt hlutverk

Megintillögur starfshópsins felast í því að yfirumsjón með samþættingu og uppbyggingu þjónustu á sviði líknar- og lífslokameðferðar á starfssvæði heilbrigðisstofnana Vestfjarða, Norðurlands og Austurlands verði í höndum Sjúkrahússins á Akureyri, gerður verði formlegur samningur milli sjúkrahússins og Heimahlynningar á Akureyri sem eru þungamiðja þjónustunnar og að unnin verði frekari þarfa- og kostnaðargreining fyrir líknar- og lífslokameðferð á starfssvæði stofnananna þriggja.

Starfshópurinn leggur áherslu á að með samstarfi stofnana, teymisvinnu heilbrigðisstarfsfólks og með hagnýtingu tækni á sviði fjarheilbrigðisþjónustu megi tryggja íbúum svæðisins almenna og sérhæfða líknar- og lífslokameðferð.

Tekið er fram í skýrslunni að starfshópurinn líti á tillögur sínar sem lið í því að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Formaður starfshópsins var Elísabet Hjörleifsdóttir. Aðrir fulltrúar voru Girish Hirlekar, svæfingalæknir, tilnefndur af Sjúkrahúsinu á Akureyri, Herdís Klausen, yfirhjúkrunarfræðingur, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Hörður Högnason, framkvæmdastjóri hjúkrunar, tilnefndur af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Margrét Björk Sigurjónsdóttir, hjúkrunarfræðingur, tilnefnd af Heilbrigðisstofnun Austurlands. Starfsmaður hópsins var Elsa B. Friðfinnsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum