Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. mars 2018 Matvælaráðuneytið

Heimsókn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til Póllands

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með Marek Gróbarczyk, sjávarútvegsráðherra Póllands - mynd

Í gær fundaði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með Marek Gróbarczyk sjávarútvegsráðherra Póllands. Fundurinn fór fram í Varsjá. Á fundinum ræddu ráðherrarnir samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegs, skipasmíða og möguleika til að efla viðskipti á milli landanna. Kristján Þór óskaði sérstaklega eftir stuðningi pólska ráðherrans við að lækka tolla á makríl til landa Evrópusambandsins. Pólski ráðherrann heimsótti Ísland árið 2016 og þá var undirritaður samstarfssamningur landanna á sviði sjávarútvegsmála.

Pólverjar hafa sýnt mikinn áhuga á samstarfi ríkjanna á sviði rannsókna og nýsköpunar. Má í því sambandi nefna að þegar Marek Gróbarczyk heimsótti höfuðstöðvar Matís í Reykjavík árið 2016 voru þrír pólskir nemendur að vinna við rannsóknir hjá Matís. Einn þeirra hefur nú lokið doktorsnámi og starfar í Póllandi. Þá var nýlega komið á samstarfi á milli háskóla í Gdansk og Háskólans á Akureyri sem rekja má til heimsóknar pólska ráðherrans til Íslands sumarið 2016.

Deginum áður heimsótti ráðherra skipasmíðastöðina Crist í Gdynia en þar er verið að smíða nýja ferju fyrir Herjólf sem verður tilbúin til afhendingar í lok ágúst á þessu ári. Áætlaður kostnaður við verkið er um 27 milljónir evra eða tæplega 3,4 milljarða króna. Ennfremur heimsótti ráðherra Akor skipasmíðastöðina sem hefur smíðað fiskiskip fyrir íslenskar útgerðir á undanförnum árum. Einnig fór ráðherrann um borð í skólaskipið Zawisza Czarny í Gdynia sem skátahreyfingin í Póllandi rekur. Skólaskipið mun að öllum líkindum sigla til Íslands á næsta ári með pólsk og íslensk ungmenni. Tilefni ferðarinnar er að á þessu ári fagna bæði ríkin 100 ára fullveldi. Þá átti ráðherrann fund með hafnaryfirvöldum í Gdansk en um er að ræða næststærstu umskipunarhöfnina við Eystrasalt. Þá fékk hann kynningu á starfsemi Eimskipa og Samskipa í Póllandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum