Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. mars 2018 Innviðaráðuneytið

Drög að reglugerð um losun frá iðnaði í umsögn

   - myndJohannes Jansson/norden.org
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um losun frá atvinnurekstri og umhverfiseftirlit vegna innleiðingar á Evróputilskipun um losun frá iðnaði.

Tilskipun ESB um losun frá iðnaði er endurskoðun og endurútgáfa á sjö eldri EES-gerðum um samþættar mengunarvarnir. Tilskipunin byggir á heildstæðri nálgun þar sem taka skal tillit til umhverfisins í heild, þ.e. mengunar í lofti, vatni og jarðvegi. Markmið tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir og takmarka mengun frá tiltekinni starfsemi, svo sem með því að setja losunarmörk vegna mengandi efna. Starfsemi sem fellur undir tilskipunina er t.d. stór málmiðnaður, álver, járnblendi, stórir urðunarstaðir, sláturhús og þauleldi af tiltekinni stærð.

Í maí 2017 voru samþykkt lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir en með þeim lögum var tilskipunin innleidd að hluta. Til að ljúka við innleiðingu tilskipunarinnar þarf að gera breytingar á núgildandi reglum, einkum reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og reglugerð um mengunarvarnareftirlit. Gert er ráð fyrir að framangreindar reglugerðir verði felldar úr gildi og í stað þeirra komi ný reglugerð um losun frá iðnaði og umhverfiseftirlit.

Í reglugerðinni er m.a. fjallað um útgáfu starfsleyfa fyrir tiltekinn atvinnurekstur, starfsleyfisskilyrði, viðmiðunarmörk fyrir losun og eftirlit með atvinnurekstrinum.

Umsögnum skal skilað í gegn um Samráðsgátt Stjórnarráðsins og er frestur til þess til 20. mars næstkomandi.

Drög að reglugerð um losun frá atvinnurekstri og umhverfiseftirlit á Samráðsgátt Stjórnarráðsins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum