Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. apríl 2018 Innviðaráðuneytið

Fjármálaáætlun 2019-2023: Aukin framlög til félags- og jafnréttismála

Samkvæmt tillögu að fjármálaáætlun fyrir árin 2019-2023 sem ríkisstjórnin hefur kynnt munu útgjöld til verkefna sem heyra undir félags- og jafnréttismálaráðherra nema um 171 milljarði á næsta ári sem er aukning um rúma 11 milljarða frá gildandi fjárlögum. Útgjöldin munu síðan vaxa áfram á gildistíma áætlunarinnar og nema um 197,4 milljörðum árið 2023. Samkvæmt áætluninni verður 4 milljörðum varið árlega til að einfalda bótakerfi almannatrygginga sem snúa að öryrkjum og framfærslu þeirra.

Rúmum tveimur milljörðum verður varið árlega í að efla fæðingarorlofssjóð þannig að hámarksgreiðsla sjóðsins verði 600 þúsund frá 1.janúar 2019.

Sérstaklega verður hugað að stöðu barna sem búa við fátækt en árlega verður varið 100 milljónum króna til verkefna sem snúa að þeim.

Gert er ráð fyrir að auka stofnstyrki til bygginga félagslegs leiguhúsnæðis um 800 milljónir á næsta ári og eftir það er gert ráð fyrir stofnstyrkjum til bygginga allt að 300 félagslegra leiguíbúða árlega.

Aðaláhersla á málefni barna

Stuðningur við einstaklinga, fjölskyldur og börn tengist mörgum sviðum sem heyra undir félags- og jafnréttismálaráðherra.  Þar á meðal eru mál sem snerta örorkulífeyrisþega en geðheilbrigðisvandi barna og fullorðinna fer vaxandi og algengasta orsök örorku ungra öryrkja eru geðraskanir. Stuðningur við börn og breytingar á málefnasviði barna er aðaláherslumál Ásmundar Einars Daðasonar félags-og jafnréttismálaráðherra.  Meginmarkmið hans er að á næstu árum verði börnum á Íslandi og fjölskyldum þeirra búið gott líf þar sem allir hafa jöfn tækifæri og öryggi sem leiðir til bættra lífsgæða óháð kyni, uppruna, fötlun eða öðrum þáttum. Brýnt er að gera breytingar er snúa að málefnum barna í vímuefnavanda og heildarendurskoðun á barnaverndarlöggjöf stendur fyrir dyrum.

Auknum fjármunum hefur verið varið til málaflokksins en til hans renna til að mynda 100 milljónir króna árlega til verkefna sem snúa að stöðu barna sem búa við fátækt en til fjölskyldumála verður varið 19,3 milljörðum króna í ár, 22 milljörðum á næsta ári og rúmum 25 milljörðum árið 2023.

Aukinn stuðningur við foreldra

Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar voru greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi hækkaðar í 520 þúsund krónur um síðustu áramót. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að lengja fæðingarorlofstímabilið og hækka hámarksgreiðslur til forelda þannig að þau séu líklegri til að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs en borið hefur á því að feður sem að jafnaði hafa hærri tekjur en mæður veigri sér við því. Breytingar á fæðingarorlofskerfinu verða gerðar í samtali við aðila vinnumarkaðarins.

„Króna á móti krónu“ skerðing afnumin

Meðal helstu áherslumála á næstu árum eru málefni fatlaðra en stefna þeirra tekur mið af hugmyndafræði og grunngildum sem gera kröfu um eitt samfélag fyrir alla og valddreifingu sem leið fyrir fatlað fólk til að ráða yfir eigin lífi. Á vorþingi verður til umfjöllunar frumvarp um málefni fatlaðs fólks sem í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar miðar við breytta hugmyndafræði að baki þjónustunni. Þá er vinna hafin að undirbúningi starfsgetumats sem komi í stað læknisfræðilegs örorkumats og að samhliða því verði gerðar breytingar á lífeyriskerfi almannatrygginga sem feli í sér einfaldara, sveigjanlegra og gagnsærra örorkulífeyriskerfi. Lagt verður til að bótaflokkar verði sameinaðir, útreikningar einfaldaðir og að framfærsluuppbót með svokallaðri „krónu á móti krónu“ skerðingu verði afnumin. Enn fremur að réttindakerfi almannatrygginga vegna skertrar starfsgetu verði breytti þannig að það hvetji til atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir auknum fjármunum til þessara verkefna sem eru langt umfram lýðfræðilega þróun og verða teknar ákvarðanir um frekari viðbætur eftir því sem starfinu miðar áfram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira