Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Ísland hlýtur alþjóðlega viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf í jafnréttismálum

Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Washington, tekur við viðurkenningunni fyrir Íslands hönd - myndLancer Photography/Kaz Sasahara
Tilkynnt var í Washington DC í gærkvöldi að Ísland hlyti sérstaka viðurkenningu fyrir brautryðjandastarf í þágu jafnréttis kynjanna, undir yfirskriftinni Framtíð karlmennskunnar (Future of Manhood). Það eru kanadísku samtökin Promundo sem veita viðurkenninguna. Í athöfn í gær var jafnframt tilkynnt um viðurkenningar til átta einstaklinga, baráttufólks fyrir jafnrétti kynjanna. Þeirra á meðal eru forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, kvikmyndagerðarkonan Jennifer Siebel Newsom, og framkvæmdastýra UN Women Phumzile Mlambo-Ngcuka. Geir H. Haarde sendiherra Íslands í Bandaríkjunum veitti viðurkenningunni mótttöku fyrir Íslands hönd.

Stjórnarformaður Promundo, Gary Barker, sagði við verðlaunaafhendinguna að fyrir tilstuðlan #MeToo byltingarinnar og annarra aðgerða kvenna hefði hulu verið svipt af ofbeldi og áreiti karla í garð kvenna og þolinmæði væri þrotin á heimsvísu. Jafnrétti kynjanna væri á dagskrá stjórnvalda um víða veröld. Þrátt fyrir það er enn langt í land ef marka má spár Alþjóðahagþróunarstofnunarinnar (World Economic Forum) um að búast megi við að 100 ár taki að ná raunverulegu jafnrétti kynjanna. Barker sagði að krefjast ætti þátttöku karla, breyta áherslum og inntaki. Við yrðum að ná þeim áfanga að skynja karlmennsku sem jákvæða, heilbrigða og friðsamlega. Sagði hann viðurkenningarnar veittar fyrir frumkvæði og framlag í þessa veru.

Í rökstuðningi fyrir viðurkenningu til Íslands kom fram að margvíslegur hvati sé í íslenskri lagasetningu, sem feli í sér skyldur og jafnframt tækifæri fyrir karla til þess að verða ábyrgir þátttakendur í lífi barna sinna. Hér er vísað til þess að allt að 90% feðra taka fæðingarorlof á Íslandi. Ennfremur kom fram að til fyrirmyndar sé hvernig Ísland hafi eflt umræðu meðal karla um jafnréttismál en hinar svokölluðu Rakarastofur hafa opnað augu karla og náð til karla á alþjóðavettvangi, veki þá til vitundar um mikilvægi jafnréttis og dulda fordóma í garð kvenna.

Promundo hefur síðustu 20 árin, eða frá 1997, náð til yfir tveggja milljóna manna í 45 löndum með starfsemi sinni sem beinist að því að uppræta kynbundið ofbeldi, styðja kvenréttindabaráttu og styrkja feður og mæður í foreldrahlutverkum þeirra. Promundo veitir ráðgjöf og liðsinni við lagalegar umbætur og áætlanagerð á sviði jafnréttismála á grundvelli stefnu og samþykkta Sameinuðu þjóðanna. Samtökin hafa staðið að einni umfangsmestu rannsókn sem gerð hefur verið í heiminum, í 36 ríkjum, á því hvernig karlmenn skynji jafnréttismál.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 5 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira