Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. maí 2018 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Istanbúlsamningurinn fullgildur á Íslandi

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ásamt Sigríði Á Andersen, dómsmálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra - myndGunnar Vigfússon
Fulltrúar ýmissa félagasamtaka, þingmenn og ýmsir fleiri komu saman í dag í tilefni af fullgildingu Istanbúlsamningsins. Samningurinn kveður á um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, afhenti aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins staðfestingarskjal á dögunum um fullgildingu Íslands á samningnum.

„Istanbúlsamningurinn er framsækinn samningur sem viðurkennir að ofbeldi gegn konum er kerfisbundið og á rætur sínar að rekja í ójafnri stöðu kynjanna. Það að samningurinn sé loks fullgildur hér á landi er mikið fagnaðarefni. Félagasamtök eru til dæmis nú komin með tæki í hendurnar til að minna stjórnvöld á skuldbindingar sínar. Eins geta ríki sett þrýsting hvert á annað um að gera betur og Ísland þarf að stand skil á sínu gagnvart Evrópuráðinu og sýna fram á að við stöndum við samninginn. Fullgilding samningsins nú er áfangi en alls ekki lokaskref. Nú stendur upp á okkur að tryggja að í hvívetna sé farið eftir samningnum og að unnið sé í anda hans við stefnumótun og lagasetningu,” segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Istanbúlsamningurinn var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011 og undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag. Samningurinn er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum. Hann kveður á um réttindi brotaþola og skyldur opinberra aðila til að vernda og aðstoða þær konur sem verða fyrir ofbeldi, fræða almenning, stjórnvöld og fagaðila, sinna forvörnum gegn ofbeldi og bjóða ofbeldismönnum úrræði og meðferð.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 5 Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum