Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. júlí 2018 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Drög að aðgerðaáætlun um Árósasamninginn til umsagnar

Merki Árósasamningsins - mynd
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að aðgerðaráætlun um Árósasamninginn.

Árósasamningurinn var fullgiltur á Íslandi 2011 en samningurinn leggur þær skyldur á aðildarríkin að tryggja almenningi aðgengi að upplýsingum um umhverfismál, að geta haft áhrif á ákvarðanatöku sem snertir umhverfið og geta borið ákvarðanir er snerta umhverfið undir óháða úrskurðaraðila.

Aðildarríki Árósasamningsins skila reglulega aðildarríkjaskýrslu til skrifstofu samningsins þar sem farið er yfir stöðu innleiðingar á ákvæðum samningsins. Ísland hefur í tvígang skilað slíkri skýrslu, árin 2014 og 2017. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að endurskoða skuli á fyrri hluta kjörtímabilsins ákvæði um aðgang samtaka almennings að ákvörðunum á sviði umhverfismála. Markmiðið er að tryggja aðkomu almennings á fyrri stigum leyfisveitingarferlis svo málsmeðferð geti orðið skilvirkari án þess að gengið sé á þennan rétt. Jafnframt segir að þjóðréttarskuldbindingum Íslands samkvæmt Árósasamningnum skuli komið til framkvæmda. Í ljósi framangreinds og þess að nú eru sjö ár liðin frá því að samningurinn tók gildi hér á landi er tímabært að fara yfir hvernig til hefur tekist.

Af þessu tilefni hafa í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu verið unnin drög að aðgerðaráætlun um eftirfylgni landsskýrslna Íslands um innleiðingu Árósasamningsins og ákvæðum stjórnarsáttmálans um þetta málefni. Drögin innihalda áherslur á fjórum sviðum og alls þrettán tillögur að aðgerðum. Sérstök áhersla er lögð á aðgerðir um aukna og bætta þátttöku almennings og umhverfisverndarsamtaka snemma í ferli ákvarðanatöku um skipulag og framkvæmdir sem og aðgerðir er tengjast réttlátri málsmeðferð í málum er varða umhverfið.

Umsögnum um aðgerðaáætlunina skal skilað í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 15. ágúst næstkomandi.

Boðið verður upp á samráðsfund um aðgerðaráætlunina miðvikudaginn 8. ágúst kl. 13 í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig til þátttöku á fundinn með því að senda póst á [email protected]

Drög að aðgerðaáætlun um Árósasamninginn er í Samráðsgátt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira