Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. september 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Tannheilsa og aðgengi að tannlæknaþjónustu

Embætti landlæknis - myndVelferðarráðuneytið

Með endurskoðun á greiðsluþátttöku aldraðra vegna tannlæknaþjónustu og nýjum rammasamningi hefur verið lagður hornsteinn sem jafnar aðgengi eldra fólks að nauðsynlegri tannlæknaþjónustu og stuðlar að betri tannheilsu þegar aldurinn færist yfir. Þetta er mat Embættis landlæknis sem fjallar um tannheilsu og aðgengi að tannlæknaþjónustu í nýjasta Talnabrunni – fréttabréfi um heilbrigðisupplýsingar.

Í Talnabrunninum er vísað í niðurstöður nokkurra rannsókna sem gerðar hafa verið á tannheilsu landsmanna og einnig könnunarinnar Heilsa og líðan landsmanna frá árinu 2017 þar sem m.a. var kannað hvort og hve oft fólk færi að jafnaði til tannlæknis. Samkvæmt könnunum hefur tannheilsa landsmanna farið batnandi síðustu áratugi. Til dæmis voru tæplega 85% landsmanna á aldrinum 18 – 44 ára með allar tennur árið 2017 samanborið við rúm 50% árið 1990. Tannlausum fækkar jafnt og þétt. Árið 2017 voru 3,6% Íslendinga á aldrinum 18 – 79 ára tannlausir, samanborið við tæplega 26% árið 1990.

Tannlæknaheimsóknir eftir aldri

Árið 2017 sögðust 73% landsmanna, 18 ára og eldri, fara að minnsta kosti einu sinni á ári til tannlæknis. Konur eru hlutfallslega fleiri en karlar í þeim hópi (78%). Aftur á móti mætti aðeins um helmingur 67 ára og eldri til tannlæknis árið 2017 samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands.

Í umfjöllun Embættis landlæknis er fjallað um hvernig kostnaðarþátttaka aldraðra í tannlæknakostnaði hefur aukist ár frá ári á þeim tíma sem enginn samningur hefur gilt um þjónustu þeirra við aldraða og öryrkja. Eins og embættið bendir á er brotið í blað með rammasamningnum við tannlækna sem tók gildi 1. september. Til að mynda verður kostnaður vegna tannlækninga aldraðra sem dvelja á sjúkrastofnunum eða hjúkrunarheimilum að fullu greiddur af Sjúkratryggingum og því raunhæft að ábyrgð á tannlæknaþjónustu eldra fólks á hjúkrunarheimilum færist frá aðstandendum yfir á heimilin sjálf, segir í Talnabrunni.

Í Talnabrunni Embættis landlæknis segir enn fremur: „Þegar haft er í huga að fjölgun í hópi eldra fólks er langt umfram fjölgun landsmanna almennt og fleiri halda eigin tönnum lengur er vaxandi viðhaldsþörf tanna staðreynd. Unnið verður áfram að heildrænni stefnu í tannheilbrigðismálum eldra fólks en það er ljóst að með endurskoðun á greiðsluþátttökukerfinu hefur hornsteinn verið lagður sem jafnar aðgengi eldra fólks að nauðsynlegri tannlæknisþjónustu og stuðlar að betri tannheilsu þegar aldurinn færist yfir.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum