Hoppa yfir valmynd

Frétt

25. október 2018 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Stefnumótun í íþróttamálum – drög að stefnu í opið samráð

Unnið er að gerð nýrrar íþróttastefnu og óskar mennta- og menningarmálaráðuneyti eftir umsögnum við drög að stefnumótun í íþróttamálum í gegnum Samráðsgátt stjórnvalda.
Stefna ríkisins í íþróttamálum byggist á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf utan skólastofnana skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum. Þar er vísað til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands, sérsambanda, íþróttahéraða, íþróttafélaga og deilda um land allt. Stór hluti landsmanna tekur þátt í slíku starfi á einn eða annan hátt. Stefnan tekur á öllum helstu þáttum íþrótta í starfi íþróttahreyfingarinnar og hvernig opinberir aðilar koma að starfinu.

Stefna þessi mun m.a. koma fram í íþróttalögum, fjármálaáætlun stjórnvalda, fjárframlögum á fjárlögum til íþróttamála og áherslum mennta- og menningarmálaráðherra hverju sinni. Stefnan er sameiginleg stefnumótun þeirra aðila sem bera ábyrgð á málaflokknum; ríkisins, sveitarfélaganna og íþróttahreyfingarinnar.

Aðkoma ríkis og sveitarfélaga miðar m.a. að því að stuðla að öruggu umhverfi iðkenda í starfinu eins og fram kom í vinnu starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra í tengslum við #églíka-frásagnir íþróttakvenna. Þá er lögð sérstök áhersla á að auka hreyfingu barna og unglinga á öllum skólastigum.

Við mótun stefnunnar var horft til framtíðar og tekið mið af því sem áunnist hefur á undanförnum árum. Mikilvægt er að allir aðilar að stefnunni taki mið af jafnréttissjónarmiðum í starfinu og að í íþróttastarfi hafi allir tækifæri til þess að taka þátt; óháð kyni, kynhneigð, kynþætti, kynvitund, litarhætti, fötlun, þjóðernisuppruna eða félagslegs uppruna, tungumáli, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum eða öðrum skoðunum, eignum, ætterni eða öðrum aðstæðum.

Ný íþróttastefna á að gilda frá 2019-2030 en ráðgert er að hún verði endurmetin árið 2024.

Smelltu hér til að lesa kynningu á nýrri íþróttastefnu í Samráðsgátt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira