Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. október 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019-2023 samþykkt í ríkisstjórn

Fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð var samþykkt í ríkisstjórn sl. föstudag. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur haft forystu um gerð áætlunarinnar í samráði við ráðherra jafnréttismála.

Áætlunin byggist á lögum um opinber fjármál. Henni er ætlað að leiða fram breytingar í jafnréttisátt en hingað til hefur kynjuð fjárlagagerð á Íslandi að mestu verið fólgin í sérstökum verkefnum. Markmiðið nú er að tengja kynjaða fjárlagagerð við alla þætti fjárlagagerðar. Greining á kynjaáhrifum fjárlaga hér á landi sýnir að ákvarðanir sem í fyrstu virðast kynhlutlausar reynast ekki vera það og hafa þær varpað frekara ljósi á ójafna stöðu kynjanna í samfélaginu. Mikilvægt er jafnframt að dýpka greiningar með því að horfa til margþættrar mismununar og skoða kynjaáhrif með tilliti til þátta eins og fötlunar, uppruna, kynvitundar og aldurs, svo dæmi séu tekin.

Ávinningurinn af kynjaðri fjárlagagerð felst m.a. í því að þekkja innbyggða hvata og áhrif tekjuöflunar og útgjalda ríkisins á stöðu og tækifæri kynjanna svo hægt sé að stuðla að jafnrétti og hagkvæmari ákvarðanatöku. Frá því að innleiðing kynjaðrar fjárlagagerðar hófst hefur mikil þekking skapast innan stjórnsýslunnar, bæði á aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar sem og kynjaáhrifum einstakra málefnasviða. Kynjuð fjárlagagerð er orðin samþættari hefðbundnum störfum stjórnsýslunnar og nýtist sem innlegg í umræður og ákvarðanatöku sem varða útgjöld og tekjuöflun ríkisins.

Í áætluninni er lögð áhersla á að vinna með þau kynjaáhrif sem þegar hefur verið varpað ljósi á og dýpka samhliða greiningar til þess að ná fram gleggri mynd af stöðu mála innan málefnasviða og málaflokka ríkisins.

Fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019-2023

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira