Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. október 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staða og horfur á vinnumarkaði: Spyrja þarf um þróun ráðstöfunartekna og kaupmáttar

Bjarni Benediktsson, Drífa Snædal og Halldór Benjamín Þorbergsson tóku þátt í pallborði um stöðu og horfur á vinnumarkaði í morgun.  - mynd

Þegar lífskjör landsmanna eru skoðuð þarf spyrja um þróun ráðstöfunartekna og kaupmáttar þeirra, fremur en að horfa aðeins á mælikvarða skatthlutfalla. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í pallborði á morgunfundi Landsbankans þar sem rætt var um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði.

Auk Bjarna tóku þátt í pallborðsumræðunum þau Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Fram kom í máli fjármála- og efnahagsráðherra að þær raddir heyrðust nú að sá árangur sem náðst hefði í kjaramálum fyrir ákveðna hópa hefði að mestu runnið til hins opinbera og skattbyrði verið velt yfir á tekjulægstu hópana. Ekki væru til tölfræðigögn sem sýndu fram á þetta. Vissulega hefði skattbyrði aukist hjá mörgum með stórhækkuðum launum og fleiri tækju nú þátt í að greiða staðgreiðslu. „En hvernig eru kjörin og hvernig eru ráðstöfunartekjur? Hvernig hefur fólk það? Menn geta mælt lífskjör á mælikvarða skatthlutfalla en ég hef meiri tilhneigingu til að spyrja um ráðstöfunartekjur og kaupmátt þeirra. Hvernig gengur þér að ná endum saman í lok mánaðar? Á alla mælikvarða sem raunverulega skipta máli í þessum samanburði hefur okkur gengið vel,“ sagði fjármála- og efnahagsráðherra.

Horfa þarf til lengri tíma


Þegar þróun persónuafsláttar væri rædd þyrfti að horfa til lengri tíma. Ráðherra sagðist þeirrar skoðunar að við ættum að hafa sem flesta þátttakendur í skattkerfinu en á Íslandi væru skattleysismörk mun hærri en á Norðurlöndunum. Þróun persónuafsláttar inn í framtíðina væri verðugt efni í komandi kjaraviðræðum. „Ég get alveg séð fyrir mér breytingu á því hvernig við látum persónuafsláttinn breytast milli ára inn í framtíðina en það er ekki hægt að leggja mat á hugmyndir sem eru ekki útfærðar,“ sagði ráðherra og vísaði þar til umræðu um að hækka lágmarkslaun yfir 400 þúsund krónur og gera þau skattfrjáls. Sagði ráðherra ljóst að ef þetta kæmi til framkvæmda tæki við skattahamar þar sem flestar krónur sem fólk bætti við sig rynnu í skatt og jaðarskattar yrðu um 70-80%, að því gefnu að skattkerfið ætti áfram að skila sömu tekjum. „Ef verið er að tala um hreina skattalækkun, sem yfirleitt hljómar vel í mín eyru, að lækka skatta, þá skulum við ræða það,“ sagði Bjarni.

Launajöfnuður að vaxa


Fjármála- og efnahagsráðherra ræddi um launajöfnuð og benti á að mælingar frá árinu 2016 sýndu að á Íslandi væri launajöfnuður mestur í Evrópu. „Við höfum engar tölur í höndunum um að launaójöfnuður sé að aukast. Við erum þvert á móti með vísbendingar um að launajöfnuður sé að vaxa,“ sagði ráðherra.

Hvað snerti þá sem væru í efstu lögum hins opinbera hefði verið unnin skýrsla fyrr á árinu og farið yfir þróun þeirra hópa sem heyrðu undir kjararáð, sem var lagt niður í sumar. Hefði niðurstaðan verið sú að þessir hópar hafi ekki skilið sig að frá öðrum hvað snerti þróun launa.

Þurfum framleiðniaukningu


Að lokum var spurt í pallborðinu hvort 2% kaupmáttaraukning á ári með eftir næstu kjarasamninga myndi stuðla að samfélagssátt. Fjármála- og efnahagsráðherra sagðist telja það mjög góðan árangur ef slíkt næðist. „Við höfum spár um að verðbólgan geti farið yfir 3% þannig að við þurfum þá að hækka laun um rúmum 2% meira en það – að koma fyrir launum sem eru að vaxa um 5-6% mögulega í þessum verðbólgutölum á hverju ári á næstu árum, ég held að það væri mikill árangur að ná því án þess að það hefði frekari neikvæð áhrif á verðbólgu eða á atvinnustig,“ sagði ráðherra. Ræða þyrfti hvaða forsendur yrðu að vera til staðar til lengri tíma til þess að hægt væri að koma þessu fyrir. „Það þarf framleiðiniaukningu til þess að brúa bilið, sagði ráðherra og kallaði eftir samtali um þessa þætti milli stjórnvalda og vinnumarkaðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum