Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. október 2018 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Umhverfis- og auðlindaráðherra sótti fund evrópskra ráðherra um sjálfbærar samgöngur

Frá ráðherrafundinum í Graz - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sótti óformlegan fund umhverfis- og samgönguráðherra Evrópuríkja í Graz í Austurríki, 29.-30. október.

Á sameiginlegum fundi sínum samþykktu umhverfis- og samgönguráðherrar Evrópusambandsríkjanna svokallaða Graz-yfirlýsingu um mikilvægi þess að hefja nýtt tímabil hreinna, öruggra og hagkvæmra samgangna í álfunni. Þannig var undirstrikaður vilji ríkjanna til að styðja við sjálfbærar samgöngur.

Þá funduðu umhverfisráðherrarnir sérstaklega þar sem til umræðu var gerð 8. aðgerðaáætlunar ESB í umhverfismálum sem áætlað er að taki gildi árið 2020 og voru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í forgrunni umræðnanna. Ræddi Guðmundur Ingi m.a. mikilvægi þess að samþætta umhverfis- og loftslagsmál öllum sviðum samfélagsins. „Þar er sérstaklega mikilvægt að horfa á þætti þar sem ávinningurinn er augljós, t.d. þegar kemur að þróun nýrrar tækni, endurheimt vistkerfa, styrkingu hringrásarhagkerfisins og sviðum þar sem samdráttur í útlosun gróðurhúsalofttegunda og aðlögun vegna þeirra haldast í hendur og ná má samlegð,“ sagði hann og lagði áherslu á mikilvægi þess að hraða aðgerðum eins og kostur er.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira