Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. desember 2018 Innviðaráðuneytið

Breyting á byggingarreglugerð vegna orkuskipta í samráðsferli

Breyting á byggingarreglugerð vegna orkuskipta í samráðsferli - myndSigurður Ólafsson/norden.org

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að breytingu á byggingarreglugerð. Megintilefnið eru orkuskipti í samgöngum og þær breytingar sem samþykktar voru síðastliðið vor á lögum um mannvirki hvað varðar stjórnsýslu mannvirkjamála.

Með breytingunni er lögð sú skylda á mannvirkjahönnuði að gera ráð fyrir hleðslu rafbíla við ákveðinn lágmarksfjölda bílastæða við annað húsnæði en íbúðarhúsnæði, en kröfur er varða íbúðarhúsnæði eru nú þegar til staðar í reglugerðinni. Þannig er lögð enn frekari áhersla á mikilvægi orkuskipta í samgöngum með hliðsjón af aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Drögin fela einnig í sér breytingar á stjórnsýslu mannvirkjamála og eru þær helstu eftirfarandi:

  • Felld er niður krafa um að allir séruppdrættir vegna mannvirkjagerðar liggi fyrir við útgáfu byggingarleyfis og dregið úr kröfum um ábyrgðaryfirlýsingar meistara.
  • Ákvæði um eftirlit Mannvirkjastofnunar með störfum hönnuða, byggingarstjóra og iðnmeistara og gæðastjórnunarkerfum eru gerð skýrari. 
  • Aukin áhersla er lögð á innra eftirlit hönnuða og skráningu niðurstaðna eftirlits í gæðastjórnunarkerfi auk þess sem áhersla er lögð á gæðastjórnun og ábyrgð byggingarstjóra.
  • Meginreglan verður sú að byggingarstjóri annast áfangaúttektir og að stöðuskoðanir verða framkvæmdar af leyfisveitanda eða skoðunarstofu. Þá er gert ráð fyrir að byggingarstjóri geti veitt öðrum umboð í ákveðnum tilvikum til að mæta í eða annast áfangaúttektir.
  • Leyfisveitanda verði heimilt við eftirlit að beita úrtaksskoðun í stað alskoðunar.
  • Felld er niður krafa um faggildingu vegna áfangaúttekta í ljósi þess að byggingarstjórum er falið það verkefni að meginstefnu til.

Einnig erum að ræða aðrar minni breytingar sem koma til vegna reynslu af framkvæmd reglugerðarinnar.

Umsögnum skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 17. desember næstkomandi.

Drög að reglugerð um (8.) breytingu á byggingarreglugerð nr. 112/2012 á Samráðsgátt


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum