Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. mars 2019 Félagsmálaráðuneytið

Samningur um almannatryggingar milli Íslands og Bandaríkja Norður- Ameríku

Í dag gengur í gildi tvíhliða samningur um almannatryggingar milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku sem undirritaður var árið 2016 svo og samkomulag um framkvæmd samningsins.

Helstu atriði samningsins eru:

Með samningnum skuldbinda löndin sig til að greiða lífeyrisbætur úr landi til einstaklinga sem búsettir eru í hinu ríkinu.

Hvað Ísland varðar tekur samningurinn til nýrra umsækjenda elli- og örorkulífeyris almannatrygginga og skyldubundna lífeyristryggingakerfisins (lífeyrissjóðir) en með nokkrum undantekningum. Þannig tekur hann ekki til örorkustyrks, barnalífeyris með barni ellilífeyrisþega eða ef barn verður ekki feðrað og ekki til örorkulífeyris er byggir á tímabilum fram til 67 ára aldurs (framtíðartímabil). Að því er Bandaríkin varðar tekur samningurinn til laga er varða alríkistryggingar vegna elli, til eftirlifandi og vegna örorku.

Samningurinn tekur til einstaklinga er falla eða hafa fallið undir lög Íslands eða Bandaríkjanna  og aðra einstaklinga að því er varðar réttindi er leiða af þeim sem samningurinn tekur til.

Meginreglan um útsenda starfsmenn er að þeir falla undir löggjöf útsendingarríkis en að hámarki fimm ár. Þeir sem starfa um borð í skipi falla undir löggjöf fánaríkis og þeir sem starfa við flutninga  í lofti og starfa á yfirráðasvæði beggja ríkjanna falla undir löggjöf ríkisins þar sem fyrirtækið hefur höfuðstöðvar.

Lífeyrisréttindi skapast hér á landi eftir þriggja ára búsetu en hafi einstaklingur ekki fullnægt skilyrðum um búsetu skal íslenska stofnunin taka tillit til tryggingatímabila sem meðreiknuð eru samkvæmt bandarískum lögum og  falla ekki saman við tryggingatímabil samkvæmt íslenskum lögum.

Við ákvörðun á rétti til lífeyris frá Bandaríkjunum skal bandaríska tryggingastofnunin (Social Security Administration) taka tillit til tryggingatímabila sem tekið er tillit til samkvæmt íslenskum lögum og falla ekki saman við tryggingatímabil sem þegar eru færð til tekna samkvæmt bandarískum lögum.

Samningurinn veitir ekki rétt til kröfu um bótagreiðslur fyrir gildistöku samningsins en við ákvörðun á rétti til bóta skal tekið tillit til tryggingatímabila og atburða er áttu sér stað fyrir gildistökuna.

Áhrif samningsins og fyrri greiðslur Íslands til Bandaríkjanna

Ísland hefur greitt lífeyri til þeirra sem flutt hafa til Bandaríkjanna í samræmi við samkomulag (orðsendingu) frá árinu 1981. Í framkvæmd hafa þeir því haldið greiðslum sínum samkvæmt íslenskum almannatryggingalögum.  Gert er ráð fyrir að þær greiðslur haldist óbreyttar.

Með samningnum er aftur á móti mótaður skýrari grundvöllur fyrir greiðslum til Bandaríkjanna og til Íslands, með þeim takmörkunum sem nefndar eru hér að framan. Auðveldara verður fyrir einstaklinga að sækja um réttindi sín þar sem aðilar snúa sér nú til viðeigandi stofnana í hvoru landi um sig og fá aðstoð við umsóknir. Tryggingastofnun mun sjá um  framkvæmdina hér á landi en í Bandaríkjunum annast Social Security Administration framkvæmdina.

Sjá nánar vef Tryggingastofnunar  og einnig U.S.-Iceland Social Security Agreement.

Heiti samninganna á íslensku og ensku:

  • Samningur um almannatryggingar milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku (e. Agreement on Social Security Between  Iceland and The United States of America).
  • Stjórnsýslufyrirkomulag milli lögbærra stjórnvalda Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku vegna framkvæmdar á samningnum um almannatryggingar milli Íslands og Bandaríkja Norður-Ameríku.  (e. Administrative Arrangement between the Competent  Authorities of Iceland and The United States of America for the Implementation of the Agreement on Social Security between Iceland and The United States of America).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira