Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. mars 2019 Innviðaráðuneytið

Ráðherra heimsótti Mannvirkjastofnun

Ásmundur Einar ásamt Birni Karlssyni, forstjóra Mannvirkjastofnunar - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, heimsótti Mannvirkjastofnun síðastliðinn föstudag, en stofnunin var flutt frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu yfir til félagsmálaráðuneytisins um áramót. Starfsmenn hennar og stjórnendur tóku vel á móti ráðherra og kynntu honum starfsemi og meginhlutverk stofnunarinnar.

Mannvirkjastofnun hefur umsjón með byggingarmálum, rafmagnsöryggismálum og brunamálum í landinu. Stofnunin stuðlar að samræmdu byggingareftirliti um allt land. Hún annast löggildingu hönnuða og iðnmeistara og gefur út starfsleyfi fyrir byggingarstjóra og faggiltar skoðunarstofur á byggingarsviði. Stofnunin sinnir sömuleiðis markaðseftirliti með byggingarvörum og tekur þátt í gerð íslenskra og evrópskra staðla á sviði byggingarmála. Þá hefur hún eftirlit með því að slökkvilið séu skipulögð og vel búin tækjum og mannskap.

Eitt mikilvægasta verkefni stofnunarinnar síðustu misseri er innleiðing rafrænnar stjórnsýslu og er rafræn byggingargátt þýðingamikil nýjung, en í henni eru vistuð öll gögn vegna mannvirkja; allt frá umsóknum um byggingarleyfi til lokaúttekta. Þá er miðlæg rafmagnsöryggisgátt, sem er ætlað að auðvelda rafræn skil á upplýsingum, orðin eitt af lykilverkfærum stofnunarinnar til að tryggja rafmagnsöryggi í landinu.  Stofnunin hefur einnig unnið að því að innleiða ISO 9001 gæðastjórnunarstaðalinn og er stefnt að því að þeirri vinnu ljúki fyrir lok árs.

"Það er mikil áhersla á húsnæðismálin í ráðuneytinu og er ný skrifstofa húsnæðis- og lífeyrismála til marks um það. Tilfærsla á mannvirkjamálum til félagsmálaráðuneytisins er jákvætt skref í átt að því að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Það er eðlilegt framhald af nýlegum breytingum á lögum um húsnæðismál þar sem meðal annars var lögð aukin skylda á ríki og sveitarfélög til þarfagreiningar, áætlanagerðar og langtímastefnumótunar í húsnæðismálum," sagði Ásmundur Einar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum