Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. mars 2019 Utanríkisráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkir að Ísland fullgildi Landslagssamning Evrópu

Rauðasandur - myndHugi Ólafsson

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag að Ísland fullgildi Landslagssamning Evrópu. Samningnum er ætlað að stuðla að verndun, stýringu og skipulagi landslags ásamt því að koma á fót evrópsku samstarfi um landslag.

Almenn ákvæði samningsins varða einkum fjögur meginatriði:

  • Að í löggjöf sé fjallað um landslag og mikilvægi þess í umhverfi landsins viðurkennt.
  • Að móta og framfylgja stefnu um landslag sem miðar að verndun, nýtingu og skipulagi þess.
  • Að tryggja aðkomu almennings og annarra að mótun stefnu um landslag.
  • Að huga að landslagi við aðra stefnumótun, svo sem í stefnu um byggðaþróun, menningarmál, landbúnað, félagsmál og efnahagsmál.

„Landslagssamningurinn hverfist ekki einungis um að varðveita náttúrulegt umhverfi heldur einnig um tengsl manns og lands. Landslag er sameiginlegur náttúru- og menningararfur hverrar þjóðar og um leið uppspretta margvíslegra gæða sem hafa áhrif á líðan okkar sem einstaklingar og sem samfélag. Fullgilding samningsins mun marka tímamót – með henni er staðfestur vilji stjórnvalda til að stuðla að landslagsvernd,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Sem fyrr segir samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum tillögu utanríkisráðherra um að Ísland fullgildi og gerist aðili að samningnum og að tillaga þar að lútandi verði lögð fyrir forseta Íslands. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið mun bera ábyrgð á innleiðingu og framfylgd samningsins í samvinnu við viðkomandi stofnanir ráðuneytisins.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira