Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. apríl 2019 Innviðaráðuneytið

Ráðherra kynnti eftirfylgni við húsnæðistillögur ríkisstjórnarinnar

Frá Reykjavík - myndHugi Ólafsson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi fyrir helgi eftirfylgni við húsnæðistillögur ríkisstjórnarinnar. Fram kom að Íbúðalánasjóði hafi verið falið að annast eftirfylgni við framangreindar tillögur en fimm ráðuneyti mynda bakhjarl þess verkefnis. Þau eru forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Fyrsta stöðuskýrsla sjóðsins liggur nú fyrir en ráðgert er að þær verði þrjár á ári.

Stöðuskýrslan byggir á tillögum sem átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði, öðru nafni átakshópur um húsnæðismál, skilaði í janúar síðastliðinn. Tillögurnar miða meðal annars að því að auka framboð á hagkvæmum íbúðum, draga úr samanlögðum húsnæðis- og samgöngukostnaði, lækka byggingarkostnað, stytta byggingartíma, bæta réttarstöðu leigjenda og auka gæði upplýsinga um húsnæðismál.

„Aðkoma stjórnvalda að lífskjarasamningi aðila vinnumarkaðarins var mikil og þar voru húsnæðismálin á oddinum. Í yfirlýsingu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings samningnum er kveðið á um að stjórnvöld muni vinna að innleiðingu tillagna átakshóps um húsnæðismál í samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög. Eftirfylgni með því skiptir miklu máli og er mikilvægt að hún sé markviss og henni framfylgt með skipulögðum hætti eins og hér er verið að gera,“ segir Ásmundur Einar.

Félagsmálaráðuneytið og Íbúðalánasjóður munu skila stöðuskýrslu um eftirfylgni við tillögur átakshópsins þrisvar á ári en jafnframt er gert ráð fyrir að þar verði gerð grein fyrir eftirfylgni við aðrar tillögur til úrbóta á sviði húsnæðismála. Má þar nefna leiðir til að lækka þröskuld ungra og tekju- og eignalágra inn á húsnæðismarkaðinn, framgang tilraunaverkefnis Íbúðalánasjóðs á landsbyggðinni og aðrar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira