Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. maí 2019 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Miklum árangri heimagistingarvaktar fylgt eftir

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Að frumkvæði ferðamálaráðherra var eftirlit sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu með heimagistingu stóraukið í fyrra með átaksverkefninu Heimagistingarvakt. Árangurinn var ótvíræður: Tíðni nýskráninga í heimagistingu fimmfaldaðist í kjölfar átaksins, skráðum eignum fjölgaði um nær 100% á milli ára og áætlað er að óskráðum og leyfislausum gististöðum hafi fækkað um meira en 30%. Engu að síður er áætlað að um helmingur allrar skammtímaleigu fari enn fram án tilskilinna leyfa eða skráningar.

Ferðamálaráðherra hefur nú á Alþingi mælt fyrir frumvarpi sem ætlað er að tryggja betur en áður að gildandi reglum sé fylgt. Í frumvarpinu felst að heimilt verður að sekta eigendur heimagistingar fyrir að skila ekki inn nýtingaryfirliti. Í öðru lagi er lagt til að sektarheimildir vegna gistingar sem er rekstrarleyfisskyld færist frá lögreglu til sýslumanns og verði þannig á sömu hendi og sektarheimildir vegna heimagistingar.

„Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt að reglur séu ekki bara sanngjarnar heldur að þeim sé líka fylgt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra. „Heimagisting er góð og skynsamleg leið til að nýta kosti deilihagkerfisins en við þurfum að passa að hún sé ekki misnotuð til að skapa óeðlilegt samkeppnisforskot á leyfisskyldan atvinnurekstur. Árangurinn af heimagistingarvaktinni er ánægjulegur, bæði fyrir nærumhverfi fólks og fyrir þá sem stunda löglegan rekstur. Það er þó ennþá verk að vinna og ég tel að þetta nýja frumvarp verði enn eitt skrefið í rétta átt.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira