Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. maí 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Heilsuefling alla ævi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar: 

Ævilíkur landsmanna hafa aukist verulega á undanförnum áratugum og þjóðin er að eldast. Samhliða hafa áskoranir vegna ýmissa lífsstílstengdra og langvinnra sjúkdóma farið vaxandi og leitt til aukins álags á heilbrigðiskerfið. Góð heilsa er okkur öllum dýrmæt og er það sameiginlegt verkefni okkar allra að leita leiða til að stuðla að og viðhalda henni.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir heilbrigði sem líkamlega, andlega og félagslega vellíðan en ekki einungis það að lifa án sjúkdóma og örorku. Með því að leggja áherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma og auðvelda fólki að velja heilbrigðan lífsstíl má draga úr líkum á því að það búi við slæma heilsu síðar á æviskeiðinu eða seinka því að heilsunni hraki.

Embætti Landlæknis hefur á undanförnum árum stuðlað markvisst að heilsueflingu í samfélaginu meðal annars í samstarfi við sveitarfélög. Árangur þess samstarfs hefur verið góður því í dag búa yfir 80% landsmanna í sveitarfélögum sem uppfylla skilyrði Embættis landlæknis um heilsueflandi samfélag. Mikilvægt er að vinna að heilsueflingu allra aldurshópa en sérstaklega mikilvægt er að koma í framkvæmd aðgerðum sem efla heilsu aldraðra og gera þeim kleift að búa lengur á eigin heimili.

Íslendingar verja 0,1% af vergri þjóðarframleiðslu til heimahjúkrunar sem er tíu sinnum lægra hlutfall en í nágrannalöndunum. Heimahjúkrun er ódýrasta og besta úrræðið til að gera öldruðum kleift að búa heima þegar heilsu fer að hraka. Það er brýnt að ríki og sveitarfélög komi sér saman um fyrirkomulag þessa mikilvæga málaflokks. Til að stuðla að því samþykkti ríkisstjórnin fyrir skemmstu stofnun starfshóps með fulltrúum frá heilbrigðisráðuneyti, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Embætti landlæknis. Starfshópurinn hefur það hlutverk að gera tillögu um samstarfsverkefni sem fjalli um heilsueflingu og aðgerðir sem gera öldruðum kleift að búa í heimahúsum eins lengi og mögulegt er.

Það er tímabært að breyta um kúrs og forgangsraða fjármunum til verkefna sem stuðla að bættri heilsu og auknum lífsgæðum alla ævi.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 27. maí 2019

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira