Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. júní 2019 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ferðamannavegurinn Norðurstrandarleið opnaður

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, við nýja skiltið um ferðamannaveginn Norðurstrandarleið. - mynd

Ferðamannavegurinn Norðurstrandarleið (e. Arctic Coast Way) var formlega opnaður í dag á Hvammstanga og Bakkafirði. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, klipptu á borða við afleggjarann inn á Hvammstanga og opnuðu þannig leiðina formlega. Það sama gerðu Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og Árni Bragi Njálsson, fulltrúi sveitarstjórnar Langanesbyggðar við afleggjarann inn á Bakkafjörð.

Við opnunina voru ný skilti vígð, sem marka Norðurstrandarleið, og gefa ferðamönnum til kynna hvenær þeir ferðast eftir henni. Umrædd merki eru ný af nálinni og hafa nýlega verið innleidd með reglugerð á vegum ráðuneytisins. Þau eru brún að erlendri fyrirmynd en þau má  nota til að gefa til kynna að umferð á vegi sem merkið er við fari um ferðamannaleið sem tengir saman áhugaverða áfangastaði sem hafa sögulegt, menningarlegt eða fagurfræðilegt gildi. Á ferðamannaleið verður að vera lágmarksþjónustu sem tekur mið af þörfum ferðamanna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sagði í ræðu við opnunina að markmið ferðamannavegarins væri að skapa betri tækifæri fyrir ferðaþjónustufyrirtæki til að selja sínar vörur undir vörumerki Norðurstrandarleiðar. Ráðherra sagði Norðurstrandarleið gott dæmi um árangursríkt samstarf tveggja sóknaráætlunarsvæða, Norðurlands vestra og Norðurlands eystra, í gegnum landshlutasamtökin SSNV og Eyþing. „
Stuðningur við þróun leiðarinnar í gegnum sóknaráætlun hefur verið umtalsverður, bæði í formi sérstakra áhersluverkefna sem og í formi verkefnastyrkja úr uppbyggingarsjóðum landshlutanna. Einnig hafa sveitarfélögin styrkt verkefnið beint. Þetta samstarf sóknaráætlunarsvæðanna hefur m.a. gert það að verkum að stuðningur við verkefnið hefur verið meiri en annars hefði verið mögulegur og verkefnið því farið hraðar af stað en ella,“ sagði ráðherra.

Vefur um Norðurstrandarleið

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar

Norðurstrandarleið

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira