Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. júní 2019 Utanríkisráðuneytið

Þrettán milljónum varið til verkefnis SÞ til stuðnings hinsegin réttindum

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur ákveðið að verja þrettán milljónum króna til UN Free & Equal, sérstaks verkefnis sem skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) heldur utan um til að vinna að útbreiðslu réttinda hinsegin fólks (LGBTI) hvarvetna í heiminum. Framlagið er í samræmi við áherslur Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna en ráðið kemur til síns 41. reglulega fundar á morgun í Genf í Sviss. 

Réttindi hinsegin fólks hafa verið meðal helstu áhersluþátta Íslands í mannréttindaráði SÞ en Ísland var fyrir réttu ári kjörið til setu í mannréttindaráðinu. Þannig bar til dæmis Ísland upp fleiri tilmæli en nokkuð annað ríki er snertu LGBTI-réttindi í allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála í fjórtán aðildarríkjum SÞ í maí sl. Auk þess er réttindum hinsegin fólks iðulega haldið til haga í málatilbúnaði Íslands í ræðum og yfirlýsingum.

„Hinsegin sambönd teljast enn glæpur í meira en þriðjungi ríkja heims. Með fjárframlaginu og áframhaldandi áherslu á réttindi hinsegin fólks í mannréttindaráðinu og þróunarsamvinnu leggjum við okkar lóð á vogarskálar í þeirri viðleitni að breyta þessu. Við kunnum að vera ólík, en öll eigum við að njóta sömu mannréttinda,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Fjárframlagið er sömuleiðis í samræmi við nýja stefnu Íslands í þróunarsamvinnu fyrir árin 2019-2023, sem Alþingi samþykkti í maí sl., og nýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins þar sem mörkuð er sú nálgun að allt starf Íslands í þróunarsamvinnu sé mannréttindamiðað. Ísland fylgist því sérstaklega grannt með stöðu mála hvað varðar réttindi hinsegin fólks í samstarfsríkjum og áhersluríkjum í þróunarsamvinnu.

Jafnréttismál eru efst á dagskrá í komandi fundarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Sérstakur skýrslugjafi ráðsins um réttindi hinsegin fólks tekur þátt í umræðum og fyrir liggur ályktunartillaga um framlengingu starfsumboðs hans, en það þótti tíðindum sæta þegar embættið var sett á með ályktun frá mannréttindaráðinu árið 2016.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum