Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. júlí 2019

Ísland áberandi á sjávarútvegssýningunni Global Fishery Forum í St. Pétursborg

Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra, tók þátt í sjávarútvegssýningunni Global Fishery Forum, sem fór fram í St. Pétursborg 10-12 júlí. Þetta er í þriðja sinn sem slík ráðstefna fer fram. Um er að ræða annars vegar ráðstefnu og hins vegar sýningu. Fulltrúar þrettán íslenskra fyrirtækja tóku þátt í sýningunni og voru liðlega þrjátíu Íslendingar mættir til þátttöku. Að þessu sinni voru þáttakendur frá tuttugu ríkjum á sýningunni og líklega hafa Íslendingar verið með eina fjölmennustu erlendu sendinefndina.

Íslandsstofa, í samstarfi við sendiráðið, stóð fyrir íslenskum þjóðarbás á sýningunni þar sem fyrirtækin Curio, Frost, Héðinn, Knarr, Lavango, Skaginn 3X, Skipasýn og Valka kynntu starfsemi sína. Auk þess voru Marel, Hampiðjan, Kapp og Sæplast með sína eigin bása á sýningunni.

Sendiherra tók þátt í pallborði undir yfirskriftinni "Fisheries: Social Dimension as a factor for the development of Territories". Í erindinu var fjallað um íslenska kvótakerfið í efnahags-, félagslegu og umhverfislegu tilliti. Í pallborðinu notaði yfirmaður rússnesks fyritækis hluta af sínum ræðutíma til að hrósa hinni frábæru tækni sem íslensk fyrirtæki hefðu fram að færa. Á sýningarsvæðinu var haldið íslenskt málþing þar sem þátttakendur kynntu sín fyrirtæki. Sendiherra flutti upphafsorð og síðan töluðu fulltrúar frá Skaganum, Naust Marine, Völku, Curio, Skipasýn, Héðni, Lavango og Marel. Auk þessara 8 fyrirtækja voru einnig fulltrúar frá Knarr, Nautic, Frost, Kapp, Sæplasti og Hampiðjunni. Þess má geta að Marel, Nautic, Knarr og Hampiðjan eru með skrifstofur í Rússlandi.

Sendiráðið og Íslandsstofa hafa áður skipulagt viðskiptasendinefndir til Rússlands. Í mars síðastliðnum heimsóttu þrettán íslensk sjávarútvegsfyrirtæki Múrmansk þar sem þau tóku þátt í 6. alþjóðlegu Fisheries in the Arctic ráðstefnunni sem haldin er þar árlega. Þá hafa sendinefndir farið til Kaliningrad, Vladivostoc og St. Péturborgar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira