Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. desember 2019 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu kærð, um að svipta fiskiskipið Z leyfi til veiða í atvinnuskyni í fjórar vikur frá og með 30. júní 2019

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru X, f.h., Y, dags. 18. júní 2019, þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 29. maí 2019, um að svipta fiskiskipið Z leyfi til veiða í atvinnuskyni í fjórar vikur frá og með 30. júní 2019 á grundvelli  2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, fyrir brot gegn 2. mgr. 3. gr. sömu laga.

Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Kröfur kæranda
Kærandi krefst þess að ákvörðun Fiskistofu, dags. 29. maí 2019, verði felld úr gildi. Jafnframt krafðist kærandi að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað. Með bréfi dags. 24. júní 2019 frestaði ráðuneytið réttaráhrifum ákvörðunar Fiskistofu til 1. október 2019.

Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvikum er lýst þannig í hinni kærðu ákvörðun að samkvæmt gögnum Fiskistofu hafi aflaheimildir Z verið 1.808 kg. umfram aflaheimildir við upphaf veiðiferðar. Fram kemur að aflaheimildir hafi verið fluttar til Z eftir að skipið hafi komið í land en áður en vigtarnótur hafi verið skráðar. Þá segir að löndunartölur sýni að Z hafi landað þorski í öllum veiðiferðum sem farnar hafa verið á grásleppu á þessu ári.

Með bréfi, dags. 3. maí 2019, hafði Fiskistofa tilkynnt Y að stofnunin hefði til meðferðar mál um meint brot gegn 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 um umgengi um nytjastofna sjávar og gaf kost á andmælum til 20. maí 2019. Með ákvörðun, dags. 29. maí 2019, svipti Fiskistofa fiskiskipið Z til veiða í fjórar vikur, frá 30. júní til og með 27. júlí 2019.  

Fram hefur komið að kærandi hafi hringt í Fiskistofu þann 18. júní 2019 og kærði ákvörðun Fiskistofu dags. 29. maí sl. Hafi kærandi jafnframt óskað eftir því réttaráhrifum ákvörðunar Fiskistofu yrði frestað. Starfsmaður Fiskistofu sendi ráðuneytinu tölvupóst samdægurs þar sem tilkynnt var um stjórnsýslukæruna.

Með tölvupósti dags. 19. júní sl. óskaði ráðuneytið eftir staðfestu afriti hinnar kærðu ákvörðunar og gögnum málsins. Sama dag sendi Fiskistofa ráðuneytinu staðfest afrit hinnar kærðu ákvörðunar sem og önnur gögn málsins. Með bréfi dags. 24. júní 2019 frestaði ráðuneytið réttaráhrifum ákvörðunar Fiskistofu til 1. október 2019. Þann 2. júlí sl. óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu vegna stjórnsýslukærunnar. Með tölvupósti dags. 5. júlí sl. upplýsti Fiskistofa að stofnunin teldi ekki tilefni til að veita umsögn kæruna að öðru leyti en að hafna því að ákvörðunin sé ólögmæt.

Málsástæður og lagarök kæranda
Kærandi telur hina kærðu ákvörðun ólögmæta og gerir þá kröfu að ráðuneytið ógildi hana með úrskurði. Kærandi lýsti þeim miklu hagsmunum sem útgerðin hefði af kærunni og að hagsmunir færu forgörðum ef hin kærða ákvörðun hefði réttaráhrif samkvæmt ákvörðunarorði. Hann óskaði þess að ráðuneytið frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Kærandi lagði ekki fram frekari greinargerð í málinu.

Málsástæður og lagarök Fiskistofu
Fiskistofa telur að skipið Z hafi þann 5. apríl 2019 brotið gegn 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með því að hefja veiðiferð án þess að hafa aflaheimildir sem telja má líklegt að dugðu fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð voru. Fiskistofa telur jafnframt að brotið hafi verið gegn 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 57/1996, en þar segir að útgerð og skipstjóra fiskiskips sé skylt að fylgjast með stöðu aflaheimilda skipa sinna með hliðsjón af úthlutuðum aflaheimildum, flutningi aflaheimilda og lönduðum afla.

Niðurstaða

I.        Kærufrestur
Stjórnsýslukæra í þessu máli barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu innan kærufrests og verður því tekin til efnismeðferðar.

II.        Rökstuðningur
Þann 5. apríl 2019 hélt fiskiskipið Z til grásleppuveiða þrátt fyrir að aflaheimildir skipsins voru neikvæðar um 1.808 kg. í þorski. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, er óheimilt að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu er þessu ákvæði einnig beitt þegar skip er í neikvæðri aflastöðu. Fram kom í hinni kærðu ákvörðun að Z hefði landað þorski í öllum sínum veiðiferðum sem farnar hefðu verið á grásleppu á þessu ári. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar, skal útgerð og skipstjóri fiskiskips fylgjast með stöðu aflahimilda skipa sinna með hliðsjón af úthlutuðum aflaheimildum, flutningi aflaheimilda og lönduðum afla.
Ráðuneytið tekur undir með Fiskistofu að með því að hefja veiðiferð þann 5. apríl 2019, þegar aflaheimildir skipsins voru neikvæðar um 1.808 kg. í þorski hafi verið brotið gegn 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 skal Fiskistofa svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfang brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en 12 vikur, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að 4. maí 2018 hafði Y, útgerð Z, verið svipti leyfi til hrognkelsaveiða í eina viku skv. 24. gr. laga nr. 116/2006 og að sú ákvörðun hefði haft ítrekunaráhrif í tvö ár og því hafði ekki komið til álita að veita útgerðinni skriflega áminningu í samræmi við 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 fyrir brot gegn 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996. Fiskistofa svipti því Z veiðileyfi í fjórar vikur skv. 1. gr. 15. gr. laga nr. 57/1996.

Með vísan til framangreinds rökstuðnings telur ráðuneytið rétt að staðfesta ákvörðun Fiskistofu.

Úrskurður
Ráðuneytið staðfestir hér með ákvörðun Fiskistofu dags. 29. maí 2019, eins og henni var breytt með ákvörðun ráðuneytisins um að fresta réttaráhrifum til 1. október 2019, um að svipta fiskiskipið Z  leyfi til veiða í atvinnuskyni í fjórar vikur á grundvelli 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, fyrir brot gegn 2. mgr. 3. gr. sömu laga. Svipting tekur gildi frá 1. október 2019 til og með 29. október 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira