Hoppa yfir valmynd

Frétt

10. janúar 2020 Matvælaráðuneytið

Tillögur um skilgreiningu á tengdum aðilum

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti tillögur verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinn er varðar endurskoðun á m.a. skilgreiningu á tengdum aðilum í lögum um stjórn fiskveiða á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Tillögur verkefnastjórnarinnar eru eftirfarandi:

  1. Skilgreining á tengdum aðilum verði látin ná til hjóna, sambúðarfólks og barna þeirra
  2. Ákveðin stjórnunarleg tengsl milli fyrirtækja leiði til þess að fyrirtækin eru talin tengd nema sýnt sé fram á hið gagnstæða
  3. Skilgreint verði hvað felst í raunverulegum yfirráðum
  4. Aðilar sem ráða meira en 6% af aflahlutdeild eða 2,5% af krókaflahlutdeild skulu tilkynna til Fiskistofu áætlaðan samruna, eða kaup í félagi sem ræður yfir hlutdeild eða kaup á hlutdeild og koma kaupin ekki til framkvæmda nema samþykki Fiskistofu liggi fyrir.
  5. Fiskistofu verði veittar auknar heimildir til afla gagna.

Nánari upplýsingar um tillögur nefndarinnar má finna hér.
Hægt er að koma á framfæri ábendingum og athugasemdum til ráðuneytisins til föstudagsins 24. janúar á netfangið [email protected]

 

Í verkefnastjórninni eiga sæti:

  • Sigurður Þórðarson, formaður
  • Brynhildur Benediktsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs- og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu
  • Elliði Vignisson, sveitastjóri
  • Hulda Árnadóttir, lögmaður
  • Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður

 

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

„Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu má rekja tilraunir starfsmanna Fiskistofu aftur um rúman áratug til að skilgreina hugtökin „tengdir aðilar“ og „raunveruleg yfirráð“ í lögum um stjórn fiskveiða. Það sjá allir að slík staða er óviðunandi. Þær tillögur sem nú liggja fyrir eru til þess fallnar að skýra það hvað felst í þessum hugtökum en jafnframt stuðla að skilvirkara eftirliti með reglum um hámarksaflahlutdeild. Það er um leið mikill styrkur í því að starfshópurinn sem ég skipaði í mars sl. nái samstöðu um þetta flókna mál og gefur vonir um að þessar tillögur geti orðið grunnur að því að færa það til betri vegar.“

 

Verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni

Ráðherra skipaði verkefnastjórnina í mars 2019 og var henni ætlað að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Í nóvember sl. óskaði ráðherra eftir því að hún skilaði þessum hluta vinnu sinnar, þ.e. um tengda aðila, fyrir 1. janúar sl.

Tilefnið skipunar verkefnastjórnarinnar var skýrsla Ríkisendurskoðunar um eftirlit Fiskistofu þar sem fram koma að ráðast þurfi í ýmsar úrbætur til að Fiskistofa geti sinnt þeim viðfangsefnum, sem henni er falið samkvæmt lögum, með skilvirkum og árangursríkum hætti. Verkefnisstjórninni er m.a. ætlað að bregðast við þeim ábendingum sem fram koma í skýrslunni.

Til að styðja við starf verkefnastjórnarinnar skipaði ráðherra einnig samráðshóp með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi, stofnana og helstu hagaðila í sjávarútvegi.

 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

14. Líf í vatni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum