Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. janúar 2020 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ráðherra fjallaði um áskoranir í samgöngumálum á ráðstefnu í Háskóla Íslands

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp um áskoranir í samgöngum á ráðstefnu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands í Hátíðarsal í dag. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti í dag ávarp á ráðstefnu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands um áskoranir í samgöngum og fjallaði um það hvernig tekist væri á við þær áskoranir af hálfu stjórnvalda. Á ráðstefnunni voru haldin fjölmörg fróðleg erindi um framtíð samgangna, orkuskipti og loftslagsbreytingar, samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og sambúð bíla og gangandi svo nokkuð sé nefnt.

Ráðherra sagðist hafa frá því að hann kom í ráðuneyti samgöngumála lagt sérstaka áherslu á að breyta forgangsröðun og flýta framkvæmdum á umferðarþyngstu vegunum. Þannig hafi framlög til vegagerðar verið aukin umtalsvert með áherslu á umferðaröryggi. Þá fjallaði Sigurður Ingi um ólíkar áskoranir í dreifbýli og þéttbýli.

„Fyrir þá sem búa á landsbyggðinni hefur það sýnt sig að öflugt innanlandsflug er byggðunum lífsnauðsynlegt. Raunar er það svo að þar sem fara þarf langt á milli hér á landi, milli Austurlands og höfuðborgarsvæðisins, er innanlandsflug sá samgöngumáti sem flestir nýta. Öflugt og samþætt kerfi innanlandsflugs, áætlunarbíla og ferja sem er raunhæfur kostur fyrir alla, óháð efnahag, er því mikilvægt framlag til aðstöðujöfnunar íbúa á landsbyggðinni. Stór liður til að jafna aðstöðumun landsmanna er hin svokallaða skoska leið, þ.e. greiðsluþátttaka stjórnvalda til þeirra íbúa á landsbyggðinni sem koma langt að og þurfa að fara fljúgandi. Jöfn tækifæri og aðgengi fyrir alla hefur verið, er enn og mun halda áfram að vera einn megin áskorun þjóðarinnar í samgöngumálum,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpi sínu.

Ráðherra sagði að höfuðborgarsvæðið hafi þanist mikið út á síðustu áratugum með stóraukinni umferð. Helstu áskoranir á höfuðborgarsvæðinu væru af öðrum toga og tengdust töfum og umferðarþunga, loftmengun og nýjum áherslum í skipulagsmálum. Því hafi verið mikilvægur áfangi náðst í haust þegar undirritaður var samgöngusáttmáli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um mestu uppbyggingaráform á svæðinu í sögunni.

Aðskildar akstursstefnur lykilatriði
Sigurður Ingi fjallaði sérstaklega um uppbyggingu samgangna á vinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins sem nái frá Hvíta í Borgarfirði til Hvítár á Suðurlandi. Margir á þessu svæði sæki vinnu og skóla til höfuðborgarsvæðisins á hverjum degi. Þetta veldur því, ásamt gríðarlegri fjölgun ferðafólks á fáeinum árum, að umferð um vegina til og frá höfuðborgarsvæðinu hefur aukist mjög mikið. 

„Það er því gríðarlega mikilvægt að byggja upp vegi á þessu svæði, aðskilja akstursstefnur og auka þar öryggi. Það er sláandi hvað aðskilnaður akstursstefna hefur stuðlað að mikilli fækkun slysa á Reykjanesbrautinni,“ sagði Sigurður Ingi.

Sundabraut eykur aðgengi að megingáttum
Loks fjallaði ráðherra um áform um byggingu Sundabrautar. „Ein stærsta einstaka framkvæmdin í þessa átt er Sundabrautin, en hún bætir til mikilla muna aðgengi að megingáttum landsmanna. Greiðara aðgengi, minni umferðatafir og mengun verður fyrir þá sem þurfa að sækja vinnu og flytja vörur milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands og Norðurlands. Ég hef því lagt áherslu á að taka frumkvæðið í Sundabrautarmálinu og hefur næsta skref verið tekið með því að leita liðsinnis Reykjavíkurborgar í þeirri vinnu,“ sagði Sigurður Ingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira