Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. febrúar 2020 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Samkeppnishæfni stóriðju könnuð í fyrsta sinn

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar hefur kynnt ríkisstjórn Íslands áform um að fá fyrirtækið Fraunhofer / Ecofy til að gera úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, með sérstakri áherslu á raforkukostnað. Ráðgert er að gengið verði frá samningi við fyrirtækið í þessari viku og að úttektinni ljúki með skýrslu til stjórnvalda fyrir lok maí.

 

Slík óháð úttekt stjórnvalda á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi hefur ekki farið fram áður.

 

Að undanförnu hefur umræða farið vaxandi um alþjóðlega samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi og þá sérstaklega með vísan til raforkukostnaðar, bæði hvað varðar framleiðslu og flutning raforku enda er raforkukostnaður stór hluti af rekstrarkostnaði stórnotenda raforku. Hafa í þeirri umræðu ýmsar tölur og upplýsingar verið settar fram sem ber nokkuð á milli varðandi hver er í raun samkeppnisstaða stóriðju á Íslandi, í samanburði við nágrannalönd.

 

Í ljósi mikilvægis stóriðju og raforkusölu í íslensku efnahagslífi er brýnt er að fara vel yfir þessi mál og fá fram óháða greiningu sérfróðs aðila á samkeppnishæfni stóriðju, með sérstakri áherslu á raforkukostnað.

 

Fraunhofer / Ecofy hefur víðtæka reynslu á þessu sviði og hefur m.a. gert samskonar úttektir fyrir Þýskaland og Noreg, á alþjóðlegri samkeppnishæfni stóriðju þar í landi með sérstakri áherslu á raforkukostnað.

 

Í úttektinni verður farið yfir hvaða atriði hafa áhrif á raforkukostnað stóriðju á Íslandi, hver sérstaða Íslands sé, hlutur raforkukostnaðar í rekstrarkostnaði, hvernig raforkukostnaður hér er samansettur og samanburður á raforkukostnaði og samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi við tilgreind nágrannalönd (Noreg, Þýskaland og Kanada). Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 9 m.kr.

 

Úttektin mun ná til allra fyrirtækja sem skilgreind eru sem stórnotendur raforku á Íslandi (álver, kísilver, járnblendi og gagnaver). Úttekt Fraunhofer mun byggja á upplýsingum sem fyrirtækið mun sækja milliliðalaust til viðkomandi stóriðjufyrirtækja og orkufyrirtækja.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira