Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. júní 2020 Innviðaráðuneytið

Ný hlutdeildarlán auðvelda tekjulágum einstaklingum að eignast fyrstu íbúð

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra á fundinum í dag. - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um hlutdeildarlán sem ætlað er að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Munu lánin brúa bilið á milli lána veittum af fjár­mála­fyr­ir­tækjum og lífeyrissjóðum ann­ars vegar og kaup­verðs hins veg­ar. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd og hefur þessi leið reynst vel þar í landi. Úrræðið var kynnt á fundi hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun í dag.

Hlutdeildarlánin verða ólík hefðbundnum fasteignalánum að því leyti að ríkið lánar tekjulágum fyrstu kaupendum ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem þeir hyggjast kaupa. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum, þó bera þau vexti hækki tekjur lántaka á lánstímanum umfram ákveðin tekjumörk. Lántakendurnir skulu endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld. Hámarkslánstími hlutdeildarlána er 25 ár. Að þeim tíma liðnum skal endurgreiða ríkinu lánið hafi íbúðin ekki þegar verið seld.

Dæmi:

Kaupverð fasteignar er 40 milljónir og hlutdeildarlán hljóðar upp á 20% af kaupvirðinu eða sem samsvarar 8 milljónum króna. Tíu árum síðar er eignin seld fyrir 50 milljónir króna. Þá eru tuttugu prósentin endurgreidd, nema hlutfallið reiknast nú af nýja fasteignaverðinu og nemur endurgreiðslan því 10 milljónum kr. Þannig nýtur ríkið sem lánveitandi einnig góðs af hækkun fasteignaverðs, ólíkt öðrum lánveitendum á húsnæðismarkaði.

Tekjulágir leggja að lágmarki til 5% eigið fé
Hlutdeildarlánin munu virka þannig að kaupandi leggur til að lágmarki 5% eigið fé og tekur 75% fasteignalán hjá lánastofnun sem fer á 1. veðrétt og 20% hlutdeildarlán hjá ríkinu sem fer á 2. veðrétt. Í ákveðnum tilvikum geta hlutdeildarlán farið upp í allt að 30% af verði fasteignar ef lántakendur uppfylla skilyrði sem sett verða. Fasteignalán lánastofnunarinnar lækkar þá á móti niður í allt að 65% af kaupverði. Meginreglan verður sú að lántakandi þarf að standast greiðslumat fyrir láni sem nemur 75% kaupverðs en heimilt verður að veita hærri hlutdeildarlán til umsækjanda ef hann er undir tilteknum tekjumörkum. Miðað verður við 7.560.000 kr. árstekjur einstaklings og 10.560.000 kr. í árstekjur hjóna og sambúðarfólks.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Það er virkilega ánægjulegt að hlutdeildarlánin séu orðin að veruleika en þau eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu stjórnvalda í húsnæðismálum. Við erum með þessari aðgerð að grípa inn í og rétta hlut tekjulágra einstaklinga á húsnæðismarkaðnum og þessi lán munu gera fólki kleift að búa við aukið öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum, óháð því hvar það býr á landinu.

  • $alt
  • $alt

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum