Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. október 2020 Innviðaráðuneytið

Frekari frestun aðalfunda húsfélaga samkvæmt fjöleignarhúsalögum, nr. 26/1994, vegna Covid-19

Félagsmálaráðuneytið leggur til að aðalfundum húsfélaga verði frestað frekar um allt að sex mánuði sökum samkomutakmarkana sem eru í gildi hér á landi til 19. október hið minnsta vegna COVID-19 faraldursins. - mynd

Félagsmálaráðuneytið leggur til að aðalfundum húsfélaga verði frestað frekar um allt að sex mánuði sökum samkomutakmarkana sem eru í gildi hér á landi til 19. október hið minnsta vegna Covid-19 faraldursins.

Þann 7. apríl sl. lagði félagsmálaráðuneytið til að aðalfundum húsfélaga yrði frestað um allt að sex mánuði vegna sóttvarnaraðgerða heilbrigðisráðuneytisins til að hægja á útbreiðslu kórónuveiru sem veldur Covid-19-sjúkdómnum þar sem ákveðnum húsfélögum gæti reynst torvelt eða ómögulegt að halda aðalfundi fyrir þau tímamörk sem kveðið er á um í 1. mgr. 59. gr. fjöleignarhúsalaga, þ.e. fyrir lok aprílmánaðar ár hvert. Mælst var því til þess að allir aðalfundir húsfélaga yrðu haldnir eigi síðar en í lok október 2020.

Frá því að tillaga félagsmálaráðuneytisins var birt í apríl sl. hafa fjöldi aðalfunda húsfélaga verið haldnir en þrátt fyrir aukið svigrúm til að ljúka aðalfundum innan tilskilinna tímamarka hafa þó ekki öll húsfélög náð að halda aðalfund á árinu. Þá hafa sóttvarnaraðgerðir heilbrigðisráðuneytisins enn á ný verið hertar þann 5. október sl. á þá leið að viðburðir þar sem fólk kemur saman eru takmarkaðir við 20 manns og þá þarf að tryggja að fjarlægð milli fólks sé einn metri og við aðstæður þar sem slíkt er ekki mögulegt er skylt að nota andlitsgrímur. Jafnframt hefur sóttvarnarlæknir hvatt landsmenn til að takmarka umgengni við aðra en sína nánustu eins og unnt er til að draga úr smithættu.

Í ljósi þessa telur félagsmálaráðuneytið því rétt að leggja til að aðalfundum húsfélaga verði frestað frekar um allt að sex mánuði og lítur ekki svo á að um brot á 59. grein fjöleignarhúsa sé um að ræða. Þó skuli allir aðalfundir húsfélaga verða haldnir fyrir lok aprílmánaðar 2021 og mögulega sameinaðir aðalfundi húsfélags fyrir árið 2021. Þá er einnig lagt til að kjörtímabil stjórna húsfélaga verði framlengt um þann tíma sem nemur töfum á að halda aðalfund, þó aldrei lengur en til loka aprílmánaðar 2021.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira