Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. október 2020 Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ráðherra á fundi viðskiptaráðherra innan EES: „Samkeppni er hvati nýsköpunar“

Ráðherra á fundinum í dag - mynd

Nýsköpun þarf að vera kjarni nýrrar efnahagsstefnu því hún er lykillinn að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma. Samkeppni og nýsköpun eru samofin. Án virkrar samkeppni er takmarkaður hvati til nýsköpunar,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra, sem tók þátt í fjarfundi ráðherra viðskipta- og samkeppnismála á evrópska efnahagssvæðinu í morgun. Efni fundarins var hvernig evrópskur iðnaður geti verið hjól hagvaxtar og viðspyrnu eftir kórónuveirufaraldurinn en einnig hvernig tryggja megi samkeppnishæfni evrópsks atvinnulífs  og virka samkeppni á innri markaði EES-svæðisins og hvernig virk samkeppni geti styrkt fyrirtæki og eflt nýsköpun. 
 
Ráðherra ræddi meðal annars hvernig samkeppnisstaða álvera í Evrópu hefur versnað á undanförnum árum vegna ríkisniðurgreiðslna til álvera sem eru utan evrópska efnahagssvæðisins.

Álver hér á landi og í öðrum löndum hafa átt erfitt með að keppa við framleiðslu álvera sem njóta mikils ríkisstuðnings í löndum utan EES-svæðisins. Til lengri tíma mun sú staða leiða til versnandi lífskjara og því mikilvægt að bæta samkeppnisstöðu evrópskra álvera,“ sagði Þórdís Kolbrún og bætti við að alþjóðlegt viðskiptaumhverfi þyrfti að tryggja að iðnaður sem nýtti endurnýjanlega orku nyti góðs af því.
 
Á fundinum voru meðal annars Margrethe Vestager, framkvæmdastjóri samkeppnismála hjá ESB, Thierry Breton, framkvæmdastjóri innri markaðar ESB, og Joe Kaeser, forstjóri Siemens. 
 
Nýsköpunarhugarfarið er að ryðja sér rúms innan fleiri greina en áður og stjórnvöld ættu að einbeita sér að því að nýta þá hæfileika og þau tækifæri sem finnast innan hvers lands. Ég er sannfærð um að þegar við komumst út úr núverandi ástandi munum við sjá aukna grósku í nýsköpun á fjölbreyttum sviðum atvinnulífsins,“ sagði Þórdís Kolbrún og sagði mikilvægt að hlúa að nýsköpunarumhverfinu og búa þannig um að rými væri fyrir nýsköpunarfyrirtækin til þess að komast á legg og að starfsumhverfi þeirra væri þeim hagstætt. 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira