Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. nóvember 2020 Matvælaráðuneytið

Unnið að hvítbók um vistkerfisbreytingar í hafinu við Ísland

Ársfundur Hafrannsóknarstofnunar - mynd

Hafrannsóknastofnun vinnur nú að hvítbók um umhverfis og vistkerfisbreytingar í hafinu við Ísland og mögulegar sviðsmyndir eða afleiðingar áhrifa loftslagsbreytinga. Vinnan er unnin að frumkvæði Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en ráðherra gerði grein fyrir vinnunni í ávarpi á ársfundi Hafrannsóknastofnunar á föstudag. Áformað er að skýrslan liggi fyrir í apríl á næsta ári.

Í skýrslunni verður m.a. tekin saman greinagóð samantekt um þróun umhverfisbreytinga, stöðu þekkingar á þeim breytingum og þekkingu á samspili umhverfisbreytinga og ólíkra þátta. Sérstaklega verður litið til tegunda sem hafa orðið fyrir miklum áhrifum af breyttu umhverfi. Þá verður einnig fjallað um mögulegar sviðsmyndir varðandi líklega þróun á vistkerfum hafsins.

Úr ávarpi ráðherra:

„Íslendingar, líkt og allar aðrar þjóðir heims, standa frammi fyrir miklum áskorunum sem leiða af loftslagsbreytingum. Breytingum á hitistigi sjávar í kringum landið fylgja margvíslegar áskoranir sem við þekkjum. Með hlýnandi sjó höfum við séð hvernig ýsan hefur flutt sig í verulegum mæli norður fyrir land og aðrar tegundir hafa einnig flutt sig um set innan Íslandsmiða.  Þá þekkja auðvitað allir hvernig makrílinn kom inn í okkar lögsögu fyrir um 15 árum og er hér enn þótt í mismiklum mæli væri undanfarin ár. Það sem veldur okkur þó mestum höfuðverk að þessu leyti er breytt hegðun loðnunnar.

Á ársfundi Hafrannsóknastofnunar fyrir ári síðan varpaði ég fram þeirri hugmynd að hvort það væri ekki tilefni til að fara í markvissa vinnu til að greina áhrif þessara breytinga. Hvort við gætum rakið á heildstæðan hátt þróun vistkerfisbreytinga í hafinu við Ísland, sett fram sviðsmyndir og öðlast með því aukin skilning. Hér hefur stofnunin mörgu að miðla.

Það er mér því mikil ánægja að geta greint frá því að ég hef nýlega gert sérstakan samning við Hafrannsóknastofnun um að skrifa svonefnda hvítbók um umhverfis og vistkerfisbreytingar í hafinu við Ísland og mögulegar sviðsmyndir eða afleiðingar áhrifa loftslagsbreytinga. Það er von mín að skýrsla þessi geti nýst stjórnvöldum, hagsmunaaðilum og fræðasamfélaginu til ýmissrar ákvörðunar í framhaldinu og gagnast sem fræðirit. Er ætlanin að skýrsla þessi liggi fyrir í apríl á næsta ári.“

 

Ávarpið í heild má nálgast hér.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
15. Líf á landi
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira