Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. febrúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór ræddi við utanríkisráðherra Pakistans

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ræddi nú síðdegis við Makhdoom Shah Mahmood Qureshi, utanríkisráðherra Pakistans, vegna leitarinnar að fjallgöngumanninum John Snorra Sigurjónssyni og samferðamönnum hans.

Qureshi upplýsti Guðlaug Þór um gang leitarinnar og tjáði honum að allt yrði gert til að bjarga mönnunum. Guðlaugur Þór þakkaði Qureshi fyrir framgöngu pakistanskra stjórnvalda og voru þeir einhuga um að reyna skyldi til þrautar að finna mennina.

Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hefur nú til meðferðar mál Johns Snorra og er starfsfólk borgaraþjónustu í sambandi við fjölskyldu hans. Allt kapp er lagt á að John Snorri finnist sem allra fyrst og eiga íslensk og pakistönsk stjórnvöld í góðri samvinnu í því skyni. Utanríkisráðuneyti Íslands og Pakistans eiga í samskiptum með milligöngu sendiráða ríkjanna í Ósló. Þá hafa íslensk stjórnvöld verið í sambandi við hermálayfirvöld í Pakistan, sem stýra leitinni, og lögregluyfirvöld ríkjanna eiga jafnframt í beinum samskiptum vegna málsins.

Yfirvöld í Pakistan hafa fullvissað íslensk stjórnvöld um að þau geri allt sem í þeirra valdi stendur til að finna John Snorra og samferðamenn hans og til þess séu allar tiltækar bjargir notaðar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira