Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. apríl 2021 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ísland tekur þátt í LIFE-áætlun Evrópusambandsins

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að taka þátt í LIFE-áætlun Evrópusambandsins (ESB). LIFE er ein af samstarfsáætlunum ESB sem hefur fjármagnað verkefni á sviði loftslags- og umhverfismála frá árinu 1992. Ísland hefur ekki verið aðili að áætluninni til þessa.

LIFE-áætlunin gegnir mikilvægu hlutverki við að ná fram á næstu árum nauðsynlegri umbreytingu yfir í hreinna, orkunýtið og kolefnishlutlaust samfélag í anda hringrásarhagkerfisins. Ljóst er að mikilvæg tækifæri felast í þátttöku í LIFE-áætluninni sem getað hjálpað til við að ná fram kolefnishlutleysi hér á landi og innleiðingu hringrásarhagkerfis.

Áætlunin styður við verkefni sem stuðla að vernd náttúru og auknum umhverfisgæðum, vernda heilsu manna og stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Einkum með stuðningi við lítil verkefni til að hefja, stækka eða flýta fyrir sjálfbærari framleiðslu, dreifingu og neysluvenjum m.a. með því að auðvelda miðlun þekkingar, auka þekkingu við framkvæmd umhverfislöggjafar og styðja við tækniþróun. Þeir aðilar sem geta sótt um styrki fyrir verkefni eru t.d. sveitarfélög, frjáls félagasamtök og fyrirtæki.

Næsta tímabil LIFE-áætlunarinnar er nú í undirbúningi og tekur til áranna 2021-2027. Á því tímabili verður lögð áhersla á fjögur meginsvið, þ.e. náttúru og líffræðilega fjölbreytni, hringrásarhagkerfið og lífsgæði, loftslagsbreytingar - aðlögun og samdrátt og orkuskipti.  

Til stendur að halda kynningarfundi fyrir áhugasama aðila á næstunni.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Ingvarsson, s. 545-8600, netfang: [email protected]

Upplýsingar um LIFE hjá Evrópusambandinu:

https://cinea.ec.europa.eu/life_en

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira