Hoppa yfir valmynd

Frétt

14. apríl 2021 Innviðaráðuneytið

Áhersla á loftslag, landslag og lýðheilsu í þingsályktunartillögu ráðherra

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir þingsályktunartillögu um endurskoðaða landsskipulagsstefnu 2015-2026.

Þingsályktunartillagan snýr að viðauka við núverandi landsskipulagsstefnu og er þar lögð áhersla á þrennt: loftslagsmál, landslagsvernd og lýðheilsu í skipulagsmálum. Þar sé horft til kolefnishlutleysis, eflingu viðnámsþróttar byggðar og samfélags gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga, gæði landslags og sérkenni náttúru og heilsu og vellíðan almennings.

Í tillögunni er lagt til að hafin verði vinna við gerð strandsvæðisskipulags í Eyjafirði og á Skjálfanda, m.a. sökum fjölbreyttrar starfsemi og nýtingar og verndar á þessum svæðum og áhuga og áformum um frekari nýtingu.

Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsgerð sveitarfélaga og er því ýmsum tilmælum beint til sveitarfélaga í stefnunni og gert ráð fyrir aðgerðum af þeirra hálfu. Meðal annars er gert ráð fyrir að sveitarfélög marki sér stefnu um loftslagsmál í skipulagi, að ráðstöfun lands til uppbyggingar og ræktunar taki mið af gæðum sem felast í landslagi og að við skipulagsgerð verði leitast við að skapa heilnæmt umhverfi sem hvetur til hollra lífshátta. Einnig er gert ráð fyrir ýmsum verkefnum stjórnvalda sem vinna að útfærslu og framfylgd stefnunnar. Sem dæmi má nefna ýmsar leiðbeiningar Skipulagsstofnunar, svo sem um loftslagsmiðað skipulag og stefnumótun og skipulagssjónarmið um nýtingu vindorku.

Árið 2018 fól ráðherra Skipulagsstofnun að vinna að breytingum á stefnunni með ofangreindum áherslum og hefur afrakstur þeirrar vinnu nú litið dagsins ljós. Landsskipulagsstefnu, sem er samræmd stefna ríkisins um skipulagsmál til 12 ára, er ætlað að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun sem og samræmingu í stefnumótun ríkis og sveitarfélaga um þróun byggðar og landnýtingu.

„Skipulagsmál skipa mjög stóran sess í daglegu lífi okkar og hafa rík áhrif á samfélag og efnahag. Með því að beita skipulagsmálum með þessum hætti í þágu loftslagsmála, landslagsverndar og lýðheilsu þróum við og þroskum skipulagspólitík á Íslandi í góðu samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Ég tel að verði viðbætur við Landsskipulagsstefnu samþykktar á Alþingi muni það hafa mjög jákvæð áhrif á framþróun íslensks samfélags,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Endurskoðuð landsskipulagsstefna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira