Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. júní 2021 Innviðaráðuneytið

Nýr gagnagrunnur um íslensk mannvirki mun bæta þjónustu og lækka kostnað

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa ákveðið að hefja uppbyggingu nýrrar mannvirkjaskrár, gagnagrunns um íslensk mannvirki. Markmiðið er að tryggja samfélaginu á hverjum tíma áreiðanlegar rauntímaupplýsingar um mannvirkjagerð og stöðuna á húsnæðismarkaði. Ráðgert er að ný mannvirkjaskrá verði komin í gagnið 1. júní 2022.

Uppbygging og rekstur á nútímalegum gagnagrunni mun skila ábata inn í samfélagið með stórbættri þjónustu, lægri kostnaði og fleiri tækifærum til nýsköpunar. Stjórnvöld og aðrir hagaðilar eigi þannig kost á að bæta enn frekar áætlanagerð á sínum vegum og taka markvissar ákvarðanir byggðar á traustum upplýsingum úr rafrænum gagnasöfnum.

„Með uppbyggingu á nýrri mannvirkjaskrá er stigið mikilvægt skref í aukinni þjónustu við sveitarfélög, fyrirtæki og stofnanir með það að markmiði að lækka kostnað,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Ég er sannfærður um a mannvirkjaskráin eigi eftir að reynast öflugt tæki við mannvirkjagerð og á húsanæðismarkaði. Skráin mun auðvelda yfirsýn á markaði og þannig gera bæði stjórnvöldum og öðrum aðilum á markaði kleift að taka ákvarðanir byggðar á rauntímaupplýsingum,“ segir Ásmundur Einar Daða, félags- og barnamálaráðherra.

Nákvæm og áreiðanleg gögn um mannvirki

Í mannvirkjaskrá verða nákvæm og áreiðanleg gögn um mannvirki á Íslandi og byggingastig þeirra. Það verður m.a. hægt að fylgjast með fjölda íbúða í byggingu eftir byggingarstigi. Upplýsingar um fasteigna- og brunabótamat verða einnig aðgengilegar, m.a. fyrir ytri vefþjónustu.

Markmið er að lækka kostnað sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana sem nýta mannvirkjaskrána en auka á sama tíma þjónustu og leita tækifæra til frekari umbóta.

Náið samstarf ráðuneyta og stofnana

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun halda utan um nýju mannvirkjaskrána og þróa nýja gagnagrunninn í góðu samstarfi við aðila verkefnisins. Mannvirki hafa hingað til verið skráð í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands en með þessum breytingum verður mannvirkjaskrá nú aðgreind frá öðrum hlutum fasteignaskrárinnar. Þjóðskrá mun á hinn bóginn áfram halda utan um landeignaskrá og staðfangaskrá.

Verkefnið verður unnið í nánu samstarfi ráðuneytanna, Þjóðskrár Íslands, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Haghöfum verður auk þess boðið upp á samráð um þróun verkefnisins. Unnið verður að því að móta tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum til að tryggja framgang verkefnisins.

Verkefnið miðar að því að uppfylla skuldbindingar stjórnvalda skv. stuðningi við lífskjarasamninga. Í samningunum lýstu stjórnvöld yfir að þau myndu innleiða 40 tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar um aukið framboð og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði (Húsnæði fyrir alla). Tillögur 34-40 fjölluðu um aukið aðgengi að áreiðanlegum rauntímaupplýsingum og samræmdum skilgreiningum með hagnýtingu húsnæðisgrunns og tillögur 17., 18., 22. og 23 um stafræna stjórnsýslu byggingarmála, einföldun regluverks o.fl.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum