Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. apríl 2022 Innviðaráðuneytið

Breytingar á lagaákvæðum vegna tilfærslu fasteignaskrár frá Þjóðskrá til HMS í samráðsgátt

Í samráðsgátt stjórnvalda hafa nú verið birt til umsagnar drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum vegna tilfærslu fasteignaskrár frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis-og mannvirkjastofnunar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila inn umsögn er til og með 11. apríl nk.

Með þessum breytingum eru stigin stór skref til að samhæfa og einfalda þjónustu á vegum hins opinbera á sviði húsnæðismála. Með því að færa fasteignaskrá til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar mun fólk geta leitað á einn stað með erindi tengd fasteignum og húsnæðismálum. Tilgangurinn með tilfærslunni er jafnframt að veita stjórnvöldum aukna yfirsýn til að framkvæma markvissar aðgerðir með það að markmiði að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. 

Verði frumvarpið að lögum mun öll starfsemi sem nú heyrir undir fasteignasvið Þjóðskrár flytjast yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og sameinast starfsemi tengdri mannvirkjaskrá. Þjóðskrá Íslands mun áfram veita öfluga þjónustu við skráningu einstaklinga í grunnskrám landsins og veitir breytingin tækifæri til að skilgreina framtíðarsýn Þjóðskrár með skýrum hætti og með skýrum skilum á milli stofnananna. Jafnframt felur breytingin í sér tækifæri fyrir Þjóðskrá til að veita sérhæfða þjónustu og takast á við ný veigamikil verkefni. 

Skipaður hefur verið stýrihópur um útfærslu breytinganna og mun starfsfólk beggja stofnana vinna saman að yfirfærslu verkefna. Báðar stofnanir reka öflugar starfsstöðvar í Reykjavík og utan höfðborgarsvæðisins og verða þær starfræktar áfram. 

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, lögum um Þjóðskrá Íslands nr. 70/2018 og lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun nr. 137/2019, í þeim tilgangi að færa ábyrgð á fasteignaskrá frá Þjóðskrá Íslands til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Er hér aðallega um orðalagsbreytingar að ræða auk þess sem lagt er til að í lögum um Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði verkefni tengd skráningu og mati fasteigna tilgreind.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira