Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. júní 2022 Utanríkisráðuneytið

Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins fundaði með aðalframkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO)

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Qu Dongyu, aðalframkvæmdastjóri FAO. - myndFAO

Í byrjun vikunnar átti Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, fund með Qu Dongyu, aðalframkvæmdastjóra Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm. Á fundinum voru ræddar áherslur Ísland í starfi stofnunarinnar, m.a. á sviði fiskveiðistjórnunar, fæðu úr höfunum, málefna smárra eyþróunarríkja, áhrif loftslagsbreytinga á ríki heims og einnig afleiðingar stríðsins í Úkraínu á fæðuöryggi í heiminum og hlutverk stofnunarinnar í þeim málum.

Aðalframkvæmdastjórinn þakkaði Íslandi fyrir stuðning við starf stofnunarinnar, einkum á sviði fiskveiða og fiskeldis og með því að kosta stöðu sérfræðings í fiskveiðum við stofnunina sem sinnir málefnum smárra eyþróunarríkja. Lýstu þeir báðir yfir gagnkvæmum vilja til að endurnýja samstarfssamning Ísland og FAO frá árinu 2019 sem miðar m.a. að því að stuðla að verndun og sjálfbærri nýtingu lífríkis sjávar, styðja við smá eyþróunarríki og vinna að framgangi bláa hagkerfisins.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna var sett á fót árið 1945 og var Ísland á meðal stofnríkja. Stofnunin er leiðandi afl í baráttunni gegn hungri í heiminum og markmið hennar er að tryggja öllum matvælaöryggi og reglulegan aðgang að nægum hágæða mat í því skyni að geta átt virkt og heilbrigt líf. Á vettvangi FAO hefur Ísland ávallt lagt sérstaka áherslu á málefni hafsins, fiskveiðar og alþjóðlega fiskveiðistjórnun en stofnunin er eini alheimsvettvangurinn fyrir sjávarútvegsmál og gegnir því afar miklu hlutverki fyrir allar fiskveiðiþjóðir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira