Hoppa yfir valmynd

Vextir og verðtrygging

Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, (vaxtalögin) gilda m.a. um vexti af peningakröfum og annað endurgjald sem áskilið er eða tekið fyrir lánveitingu. Í lögunum er þannig að finna reglur sem gilda um almenna vexti, upphafstíma dráttarvaxta og fjárhæð auk reglna um vexti af skaðabótakröfum. Þá innihalda vaxtalögin auk þess ýmis ákvæði sem lúta að vöxtum, s.s. um höfuðstólsfærslu vaxta og skyldu Seðlabanka Íslands til birtingar vaxta.

Vaxtalögin taka einnig til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár í íslenskum krónum. Með verðtryggingu er átt við breytingu í hlutfalli við innlenda vísitölu. Vaxtalög heimila einungis verðtryggingu sparifjár og lánsfjár á grundvelli vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar auk hlutabréfavísitalna. Í lögunum er að finna nánari reglur um verðtryggingu, s.s. að Seðlabankinn geti ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. 160/2015 að ákvæði í skuldabréfi sem kvað á um verðtryggingu fasteignaláns á grundvelli vísitölu neysluverðs væri lögmætt. Héraðsdómur hafði leitað eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um túlkun Evróputilskipunar um óréttmæta skilmála í neytendasamningum sem komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. E-25/13 að tilskipunin legði ekki almennt bann við verðtryggingu lána.

Á árunum fyrir hrun fjármálakerfisins árið 2008 var algengt að kveðið væri á um gengistryggingu í ýmis konar fjármögnunarsamningum. Með dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 var skorið úr um að gengistrygging væri óheimil samkvæmt vaxtalögum. Í kjölfarið var bætt við lögin uppgjörsreglum um samninga sem fela í sér ólögmæta gengistryggingu.

Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með því að eftirlitsskyldir aðilar fari að ákvæðum laga um vexti og verðtryggingu, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Síðast uppfært: 8.10.2021
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum