Hoppa yfir valmynd

Fjármálamarkaður

Stuðlað er að virkum fjármálamarkaði þar sem einstaklingum og fyrirtækjum stendur til boða þjónusta og fjármagn sem tryggir vöxt og viðgang raunhagkerfisins. Réttur neytenda er þannig tryggður án þess að efnahags- og fjármálalegum stöðugleika sé ógnað.

Innlend löggjöf á sviði fjármálamarkaða felur að miklu leyti í sér samræmdar reglur sem gilda á öllu EES-svæðinu og hefur Evrópusambandið gert viðamiklar breytingar á þeim frá hruni fjármálakerfisins árið 2008. Ísland er skuldbundið til að leiða i íslenskan rétt þær Evrópureglur sem teknar eru upp í EES-samninginn.

Íslensk stjórnvöld hafa frá hruni fjármálakerfisins unnið að endurreisn þess. Sjá t.d. skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um Framtíðarskipan fjármálakerfisins (mars 2012), tillögur um heildarumgjörð um fjármálastöðugleika á Íslandi (febrúar 2013) og skýrslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um undirbúning lagafrumvarpa um bætta heildarumgjörð laga og reglna um íslenskt fjármálakerfi (febrúar 2013).

Í ráðuneytinu er unnið að viðamiklum umbótum á löggjöf á fjármálamarkaði sem að byggja að miklu leyti á Evrópureglum, sjá t.d. greinargerðir ráðuneytisins þar um.

Fjármálaeftirlitið

Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð stofnun sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með því að aðilar á fjármálamarkaði fari að lögum og reglum. Fjármálaeftirlitið starfar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og eru ákvarðanir þess ekki kæranlegar til ráðherra.

Stofnunin hefur meðal annars eftirlit með starfsemi viðskiptabanka, sparisjóða, lána- og verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, lífeyrissjóða, rekstrar- og vátryggingafélaga, kauphalla o. fl.

Evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði

Í kjölfar þeirra áfalla sem dundu yfir fjármálamarkaði frá árinu 2008 fór fram endurskoðun á umgjörð eftirlits með fjármálamörkuðum innan Evrópusambandsins (ESB). Sú endurskoðun leiddi til þess að komið var á fót þremur nýjum eftirlitsstofnunum á evrópskum fjármálamarkaði, sem tóku til starfa í ársbyrjun 2011, og eru þær hornsteinar þeirra umbóta sem komið var á í kjölfar kreppunnar. Stofnanirnar þrjár eru Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (e. European Banking Authority, einnig nefnd EBA), Evrópska verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunin (e. European Securities and Markets Authority, einnig nefnd ESMA) og Evrópska vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlitsstofnunin (e. European Insurance and Occupational Pensions Authority, einnig nefnd EIOPA).

Tilgangur stofnananna þriggja er að tryggja nánara samstarf fjármálaeftirlita aðildarríkja, auðvelda beitingu evrópskra lausna vegna fjölþjóðlegra vandamála og styðja við einsleita beitingu og túlkun reglna. Stofnanirnar hafa valdheimildir sem þær geta beitt við sérstakar aðstæður og þegar fjármálaeftirlit aðildarríkja bregst. Þeim er m.a. falið vald til að taka bindandi ákvarðanir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum eða fyrirtækjum þegar neyðarástand skapast, til að banna tímabundið eða takmarka ákveðna fjármálastarfsemi og til að taka bindandi ákvarðanir í ágreiningsmálum eftirlitsstjórnvalda. Daglegt eftirlit með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum er eftir sem áður í höndum einstakra ríkja, að undanskildu eftirliti með lánshæfismatsfyrirtækjum og afleiðuviðskiptaskrám.

Til viðbótar við stofnanirnar þrjár var Evrópska kerfisáhætturáðinu (e. European Systemic Risk Board, einnig nefnt ESRB) komið á fót. Meginverkefni þess er að meta og vakta kerfisáhættu og greina ógnir sem kunna að steðja að fjármálastöðugleika innan ESB.

Á árinu 2012 hófust viðræður milli EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um leiðir til þess að taka þessar gerðir og aðrar þeim tengdar upp í EES-samninginn. Á fundi fjármála- og efnahagsráðherra EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsins hinn 14. október 2014 komst á samkomulag um meginatriði við innleiðingu þriggja reglugerða um evrópskar eftirlitsstofnanir á fjármálamarkaði í EES-samninginn. Samkomulagið byggðist á tveggja stoða kerfi EES-samningsins og felur í sér að allar bindandi ákvarðanir gagnvart EFTA-ríkjunum þremur innan EES, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, verða teknar af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og að hægt verði að bera þær undir EFTA-dómstólinn.

Hinn 23. september 2009 samþykkti Alþingi þingsályktun sem heimilaði ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd fyrirhugaðar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í EES-samninginn stofngerðir hinna Evrópsku eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði og samning um breytingu á samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um hlutverk og valdheimildir Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði fjármálaeftirlits:

Skipting fjármálamarkaðar

Skipta má starfsemi á fjármálamarkaði gróflega í þrennt: bankamarkað, vátryggingamarkað og verðbréfamarkað. Á þessum markaði eru einnig starfsemi greiðslukerfa og greiðsluþjónusta. 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira