Hoppa yfir valmynd

Innstæður o.fl.

Í kjölfar óstöðugleika á fjármálamarkaði haustið 2008 gripu íslensk stjórnvöld til aðgerða til að tryggja hagsmuni innstæðueiganda og stuðla að fjármálastöðugleika. Auknar kröfur voru gerðar gagnvart innlánsstofnunum m.a. varðandi eigið fé þeirra og getu þeirra til að greiða út innstæður. Jafnframt var staða innlána sem forgangskrafa tryggð með lögum. Þessu til viðbótar er til staðar Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja (TVF) sem tryggir innstæður komi til þess að innlánsstofnun verði ófær um að greiða innstæður út.

Tryggingarsjóður vegna fjármálafyrirtækja starfar samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og starfar í þremur sjálfstæðum deildum, þ.e. skilasjóði, innstæðudeild, og verðbréfadeild.

Viðskiptabankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki og, ef við á, lánafyrirtæki, rekstrarfélög verðbréfasjóða og rekstraraðilar sérhæfðra sjóða skulu eiga aðild að innstæðu- og/eða verðbréfadeild sjóðsins, enda hafi þeir staðfestu hér á landi. Sama gildir um útibú þessara aðila innan EES. Á vef sjóðsins er listi yfir aðildarfyrirtæki.

Innstæðudeild

Innstæðudeild tryggir innstæður í bönkum og sparisjóðum. Greiðslur til hvers innstæðueiganda skulu nema heildarfjárhæð tryggingarhæfra innstæðna hans hjá hverjum banka eða sparisjóði, þó aldrei hærri fjárhæð en að jafnvirði 100.000 evra (EUR) í íslenskum krónum. Tryggingarhæfar innstæður eru m.a. innstæður einstaklinga á innlánsreikningum í bönkum og sparisjóðum.

Verðbréfadeild

Verðbréfadeild veitir viðskiptavinum fyrirtækja sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Verði fyrirtækið ekki fært um að greiða til baka verðbréf eða reiðufé sem viðskiptavinur krefur það um er sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Lágmarksvernd samsvarar 1,7 millj. kr. miðað við kaupgengi evru 5. janúar 1999.

Skilasjóður

Skilasjóður er sjóður um fjármuni sem skilavald Seðlabanka Íslands getur notað við skilameðferð fjármálafyrirtækis í samræmi við lög um skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja. Tryggingasjóður vegna fjármálafyrirtækja fer með vörslu sjóðsins en skilavaldið tekur ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum.

Síðast uppfært: 27.3.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum