Hoppa yfir valmynd

Innstæðutryggingar

Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) starfar samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta. Regluverk um tryggingarsjóðinn byggir alfarið á samræmdum Evrópureglum sem Ísland er skuldbundið að fylgja á grundvelli aðildar að EES-samningnum.

Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun  og starfar í þremur sjálfstæðum deildum, þ.e. tveimur innstæðudeildum og einni verðbréfadeild. Innstæðudeildir tryggja innstæður í bönkum og sparisjóðum. Tryggingarsjóður tryggir á hverjum tíma innstæður sem nema að lágmarki fjárhæð sem samsvarar 20.887 evrum.

Viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf eiga aðild að sjóðnum. Sama gildir um útibú þessara aðila innan EES. Á heimasíðu sjóðsins er listi yfir aðildarfyrirtæki.

Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands um að innstæður hér á landi séu tryggðar

Ríkisstjórn Íslands sendi frá sér yfirlýsingu hinn 6. október 2008 um að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi væru tryggðar að fullu. Með innstæðum var átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tók til.

Hinn 9. september 2016 gaf ríkisstjórn Íslands út yfirlýsingu um að fyrri yfirlýsingar um að innstæður hér á landi væru tryggðar að fullu séu úr gildi fallnar.

Icesave

Í kjölfar fjármálaáfallsins haustið 2008 kom upp milliríkjadeila í tengslum við innlánsreikninga á netinu, svokallaða Icesave reikninga, sem Landsbankinn bauð almenningi í Bretlandi og Hollandi.

Ágreiningurinn stafaði af því reikningarnir urðu óaðgengilegir við fall Landsbankans en bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu að greiða innstæðueigendum út rétt eins og vegna innlánsstofnana eða útibúa slíkra stofnana þar í landi. Í kjölfarið kröfðust stjórnvöld þessara ríkja þess að Ísland greiddi þeim til baka útgreiddar fjárhæðir á þeim grundvelli að Ísland bæri ábyrgð á skuldbindingum hins íslenska innstæðutryggingasjóðs og að íslenskum stjórnvöldum væri óheimilt að ábyrgjast aðeins innstæður hér á landi, sbr. yfirlýsingu þar um frá 6. október 2008. Í framhaldinu fóru af stað samningaviðræður og alls voru gerðar þrjár tilraunir til að semja um málið. Í fyrsta skiptið samþykkti Alþingi endurgreiðslusamning með fyrirvörum sem Bretar og Hollendingar felldu sig ekki við. Í annað skiptið samþykkti þingið endurgreiðslusamning sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, neitaði staðfestingar og vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem samningurinn var felldur með miklum meirihluta. Þriðji samningurinn um Icesave fór áþekka leið og var felldur i þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011.

Þegar ljóst þótti að samningaleiðin væri fullreynd hóf eftirlitsstofnun EFTA undirbúning málssóknar fyrir EFTA-dómstólnum vegna meintra brota Íslands á skyldum sínum samkvæmt EES-samningnum. Í janúar 2013 komst EFTA-dómstólinn að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hefðu ekki brotið gegn tilskipun um innstæðutryggingar eða mismunað innstæðueigendum.

Tryggingarsjóðurinn, hollenski seðlabankinn og breski innstæðutryggingasjóðurinn náðu samningum um lokauppgjör krafna vegna Icesave málsins í september 2015.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira