Hoppa yfir valmynd

Virðisaukaskattur

Skattskyldusvið

Greiða skal í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, eins og nánar er ákveðið í lögum um virðisaukaskatt. Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra sem og til allrar vinnu og þjónustu sem ekki er sérstaklega undanþegin með lögum.

Skattþrepin í virðisaukaskatti eru tvö, þ.e. almennt þrep sem er 24% og lægra þrep sem er 11%. Í lögum um virðisaukaskatt er jafnframt kveðið á um að tilteknar vörur og þjónusta teljist ekki til skattskyldrar veltu. Sú velta ber 0% virðisaukaskatt. Á verð allra vara og þjónustu skal því leggja 24% virðisaukaskatt að því gefnu að veltan sé ekki undanþegin virðisaukaskatti. Þó skal virðisaukaskattur af tiltekinni vöru og þjónustu vera 11%, t.d. matvöru, menningartengdri þjónustu o.fl.

Skráning virðisaukaskattsskyldra aðila

Sérhver skattskyldur aðili skal ótilkvaddur eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst, tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til ríkisskattstjóra á sérstöku eyðublaði, RSK 5.02. Undanþegnir skattskyldu eru þeir aðilar sem selja þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti, listamenn vegna sölu eigin listaverka í tilgreindum tollskrárnúmerum, uppboðshaldarar vegna sölu þessara verka á listmunauppboðum, skólamötuneyti og þeir aðilar sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 2.000.000 kr. eða minna á hverju 12 mánaða tímabili frá því að starfsemi hefst.

Útskattur

Útskattur er sá skattur sem seljandi vöru og þjónustu innheimtir af skattskyldri veltu sinni. Skattskylda veltan er metin til verðs á skattverði. Skatturinn leggst á skattverðið og er 24% nema vara og þjónusta falli í lægra þrep virðisaukaskatts og er þá 11%.

Til skattskyldrar veltu telst heildarskattverð allra vara og skattskyldrar þjónustu sem afhent hefur verið á tímabilinu. Þá telst til skattskyldrar veltu m.a. andvirði vöru og þjónustu sem skattskyldur aðili selur eða framleiðir og eigandi tekur út til eigin nota.  

Einnig telst til skattskyldrar veltu sala eða afhending vöru sem seld er í umsýslu- eða umboðssölu og sala eða afhending á vélum, tækjum og öðrum rekstrarfjármunum.

Innskattur

Innskattur er sá skattur sem að skattskyldur aðili greiðir öðrum skattskyldum aðilum eða Tollstjóra við kaup eða innflutning á vörum eða þjónustu (aðföngum) til nota í skattskyldum rekstri sínum, enda byggist innskattskrafa aðilans á fullnægjandi gögnum.

Rekstraraðilar hafa heimild til að draga innskatt frá útskatti, en til innskatts má telja virðisaukaskatt af svo til öllum aðföngum rekstraraðila sem varða skattskylda sölu þeirra. Í nokkrum tilvikum er frádráttarheimildin þó takmörkuð eða engin.

Skilyrði innskattsfrádráttar er að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá þegar viðskipti eiga sér stað.

Til innskatts er ekki heimilt að telja virðisaukaskatt af tilteknum aðföngum.

Uppgjörstímabil og gjalddagar

Skattskyldum aðilum ber að gera upp virðisaukaskatt eftir hvert uppgjörstímabil með greiðslu virðisaukaskatts ásamt rafrænni virðisaukaskattsskýrslu þar sem greint er frá skattskyldri veltu á uppgjörstímabilinu og útskatti.

Almenn uppgjörstímabil fyrir hvert tímabil eru tveir mánuðir, janúar og febrúar, mars og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember. Gjalddagi virðisaukaskatts er einum mánuði og fimm dögum eftir lok hvers almenns uppgjörstímabils. Sem dæmi er gjalddagi vegna janúar og febrúar 5. apríl. Ef gjalddaga virðisaukaskatts ber upp á helgidag eða almennan frídag færist hann á næsta virka dag þar á eftir.

Þeir sem selja skattskyldar vörur eða þjónustu fyrir minna en 4.000.000 kr. án virðisaukaskatts á heilu almanaksári skulu á næsta almanaksári nota það sem uppgjörstímabil ef reiknað endurgjald á mánuði er lægra en 200.000 kr. Ríkisskattstjóri tilkynnir aðila að hann hafi verið færður í ársskil.

Endurgreiðslur

Í ákveðnum tilfellum geta einstaklingar og fyrirtæki fengið endurgreiddan virðisaukaskatt úr ríkissjóði. Þeir sem byggja íbúðarhúsnæði geta fengið endurgreiddan 60% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað. Endurgreiðslan á einnig við um eigendur íbúðarhúsnæðis vegna þess virðisaukaskatts sem eigendur hafa greitt af vinnu manna við endurbætur eða viðhald húsnæðis.

Frá 1. janúar 2020 til og með 31. desember 2023 er jafnframt heimilt að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað vegna uppsetningar hleðslustöðvar fyrir bifreiðar í eða við íbúðarhúsnæði. Þá er jafnframt heimilt á sama tímabili að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa á hleðslustöð fyrir bifreiðar til uppsetningar í eða við íbúðarhúsnæði.

Þá geta opinberir aðilar, sveitarfélög og ríkisstofnanir sótt um endurgreiðslu á ýmis konar þjónustu svo sem sérfræðiþjónustu, ræstingu, sorphreinsun og snjómokstri.

Einnig geta erlend fyrirtæki, erlendir sendimenn og erlendir ferðamenn sótt um endurgreiðslu á greiddum virðisaukaskatti vegna kaupa á eftir atvikum vörum og þjónustu hér á landi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 6.2.2020 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum