Hoppa yfir valmynd

Innflutningur

Aðflutningsgjöld og útflutningsgjöld

Aðflutningsgjöld og útflutningsgjöld eru samheiti yfir tolla og aðra skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru við inn- eða útflutning.

Útflutningsgjöld hafa ekki verið lögð á frá árinu 1990.

Aðflutningsgjöldin eru m.a. tollur, virðisaukaskattur, vörugjöld, kolefnisgjald, ýmiskonar eftirlitsgjöld, áfengisgjald, tóbaksgjald og úrvinnslugjald.

Að meginreglu ber að staðgreiða aðflutningsgjöld við innflutning. Hins vegar eiga aðilar sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá oft rétt á greiðslufresti sem getur þó verið mislangur eftir tegund gjalda.

Nánari upplýsingar um aðflutningsgjöld koma fram í umfjöllun um hvert gjald fyrir sig.

Tollar

Tollar eru lagðir á vörur sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins. Allir sem flytja inn vörur eru tollskyldir og ber að greiða toll við innflutninginn nema vörurnar beri 0% toll eða séu með einhverjum hætti undanþegnar tolli. Tilteknir aðilar eru þó undanþegnir tollskyldu að hluta eða öllu leyti samkvæmt ákvæðum tollalaga.

Svokallaðir tollkvótar eru tiltekið magn vöru sem flutt er inn á lægri tollum en samkvæmt tollskrá. Tollkvótum er úthlutað að undangengnu umsóknarferli.Tollaframkvæmd er í höndum Skattsins.

Innflytjanda vöru ber að tollflokka hana og skila aðflutningsskjölum áður en vara er tollafgreidd. Í dag eru flestar aðflutningsskýrslur rafrænar en tollyfirvöldum er þó heimilt að taka á móti skriflegum gögnum. Tollyfirvöld annast álagningu tolla en ákvarðanir þeirra um tollflokkun má kæra til yfirskattanefndar. Umfang tolla kemur fram í svokallaðri tollskrá sem er birt sem viðauki við tollalög. Tollskráin er birt með rafrænum hætti á vef Skattsins en þar er einnig að finna reiknivélar sem geta gagnast þeim sem velta kostnaði við innflutning vöru fyrir sér.

Ferðamenn og farmenn njóta sérstakra fríðinda við innflutning vöru sem þó hafa tiltekin fjárhæðarmörk. Þá eru ýmsar vörur undanþegnar tollum af málefnalegum ástæðum, t.d. búslóðir manna sem flytja hingað til lands, erlendi heiðursmerki og verðlaun, vörur sem eru endursendar til landsins, endursendar tómar umbúðir, gjafir undir tilteknum takmörkum og sendingar vegna markaðssetningar og vöruþróunar. Erlendir sendimenn hér á landi eru undanþegnir tollum. 

Virðisaukaskattur

Virðisaukaskattur er greiddur af innflutningi á vörum og þjónustu eins og kveðið er á um í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Til skattverðs virðisaukaskatts teljast m.a. skattar og gjöld sem lögð eru á við innflutning til landsins. Innflytjandi vöru eða þjónustu greiðir skattinn við innflutning en sé hann virðisaukaskattsskyldur getur hann fært greiddan skatt sem innskatt á móti útskatti við uppgjör virðisaukaskatts. Að öðru leyti vísast til almennrar umfjöllunar um virðisaukaskatt á þessari vefsíðu.

Vörugjöld

Almenn vörugjöld voru lögð af í upphafi árs 2015. Hins vegar er enn lagt vörugjald á ökutæki, eldsneyti o.fl.

Vörugjald er greitt af skráningarskyldum ökutækjum sem flutt eru til landsins eða framleidd hér á landi. Gjaldið er að meginreglu lagt á ökutæki í tíu gjaldþrepum miðað við skráða losun koltvísýrings mælt í kílógrömmum á hvern ekinn kílómetra, frá 0% ef losunin nemur 0–80 grömmum á kílómetra upp í 65% ef losunin nemur yfir 250 grömmum á kílómetra. Viðamiklar undanþágur eru þó gerðar frá meginreglunni, þannig eru tiltekin ökutæki alfarið undanþegin gjaldinu, önnur bera fast 13% eða 30% gjald og um enn önnur gilda sérstakar reglur.

Tvennskonar vörugjöld eru lögð á bensín, þ.e. almennt vörugjald og bensíngjald. Gjöldin nema fastri krónutöku á hvern líta bensíns en innflytjendur og framleiðendur bensíns eru gjaldskyldir.

Kolefnisgjald

Kolefnisgjald er lagt á eldsneyti sem inniheldur komefni af jarðefnauppruna og notað er á fljótandi eða loftkenndu formi eða í iðnaðarferlum þannig að sú notkun leiði til losunar koltvísýrings í andrúmsloftið. Með eldsneyti sem inniheldur kolefni af jarðefnauppruna á fljótandi eða loftkenndu formi er átt við gas- og dísilolíu, bensín, brennsluolíu og jarðolíugas og annað loftkennt kolvatnsefni. Gjaldið er lagt á sem fast krónutölugjald á lítra eða kílógramm eldsneytis en innflytjendur og framleiðendur standa skil á gjaldinu í ríkissjóð.

Eftirlitsgjöld

Ýmiskonar gjöld eru lögð á innflutning til að standa undir eftirliti með innfluttum vörum. Annars vegar eru gjöldin lögð á samkvæmt heimildum sem koma fram í 195. gr. tollalaga, nr. 88/2005, eða samkvæmt sérstökum heimildum sem kveðið er sérstaklega á um í öðrum lögum. Sem dæmi um eftirlitsgjöld eru tollafgreiðslugjöld, förgunargjald, insiglisgjald, raffangaeftirlitsgjald og plöntueftirlitsgjald.

Áfengisgjald og tóbaksgjald

Áfengisgjald er lagt á neysluhæft áfengi sem í er meira en 2.25% af vínanda að rúmmáli og fer eftir magni vínanda. Öllum sem flytja inn eða framleiða áfengi hér á landi til sölu eða vinnslu ber að greiða áfengisgjald samkvæmt lögum um gjald af áfengi og tóbaki.
Tóbaksgjald er lagt á allt tóbak sem er innflutt eða framleitt hér á landi. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) leggur á og innheimtir tóbaksgjald af tóbaksvörum. Um fjárhæð tóbaksgjalds fer eftir ákvæðum laga um gjald af áfengi og tóbaki.

Úrvinnslugjald

Til að stuðla að úrvinnslu úrgangs skal leggja úrvinnslugjald á vörur hvort sem þær eru fluttar inn til landsins eða framleiddar hér á landi. Úrvinnslugjald skal m.a. standa undir kostnaði við meðferð flokkaðs úrgangs á söfnunarstöð, flutning hans frá söfnunarstöð til móttökustöðvar eða endurnýtingarstöðvar, enda hafi verið greitt úrvinnslugjald af vörunum. Þá skal gjaldið standa undir endurnýtingu úrgangsins og förgun hans eftir því sem við á. Jafnframt skal gjaldið standa undir kostnaði við förgun þess úrgangs sem blandast hefur vöru sem greitt hefur verið úrvinnslugjald af, enda sé blöndunin hluti af eðlilegri notkun vörunnar.
Að öðru leyti vísast til almennrar umfjöllunar um úrvinnslugjald á þessari vefsíðu.

 

Síðast uppfært: 20.2.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum