Hoppa yfir valmynd

Opinber stefna um fjármálastöðugleika

Inngangur

Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Því ber að móta opinbera stefnu um fjármálastöðugleika samkvæmt lögum um ráðið, nr. 66/2014. Í fjármálastöðugleikaráði sitja seðlabankastjóri og fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður. Fundargerðir fjármálastöðugleikaráðs eru opinber gögn sem birt eru á vef ráðuneytisins í síðasta lagi mánuð eftir fundi ráðsins.

Þessi stefna lýsir hvernig stjórnvöld hyggjast varðveita fjármálastöðugleika hér á landi enda felast í honum þýðingarmikil almannagæði. Markmiðið er að viðnámsþróttur fjármálakerfisins sé nægur til að standast áföll í efnahagslífi og á fjármálamörkuðum, og að fjármálakerfið geti miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.

Vöktun fjármálastöðugleika og mælikvarðar á kerfisáhættu

Fjármálastöðugleikaráð vaktar efnahagslegt ójafnvægi, áhættu í fjármálakerfinu, óæskilega hvata og aðrar aðstæður sem eru líklegar til að ógna fjármálastöðugleika og metur árangur af beitingu þjóðhagsvarúðartækja. Þá ber ráðinu að samræma aðkomu stjórnvalda og meta til hvaða aðgerða ætti að grípa þegar fjármálastöðugleika er ógnað eða hætta er á því að honum verði ógnað. Fjármálastöðugleikaráð byggir einkum á tillögum eða greiningu Seðlabanka Íslands við vinnslu verkefna sinna.

Seðlabanka Íslands er falið það hlutverk að lögum að stuðla að fjármálastöðugleika og traustri og öruggri fjármálastarfsemi. Hann leggur reglulega mat á ástand og horfur í fjármálakerfinu, kerfisáhættu og fjármálastöðugleika og upplýsir fjármálastöðugleikaráð um niðurstöður sínar. Vaxandi kerfisáhætta er talin vera til staðar þegar samspil fjármálakerfis og þjóðarbúskapar felur í sér hagsveiflumögnun, fjármálafyrirtæki verða viðkvæm fyrir aðgerðum hvers annars og annarra aðila og aukin hætta er á atburðarás sem getur ógnað fjármálastöðugleika með neikvæðum áhrifum á þjóðarbúskapinn.

Við mat á fjármálastöðugleika og vaxandi kerfisáhættu er tekið mið af millimarkmiðum Evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) auk íslenskra aðstæðna. Því er lögð áhersla á að fylgjast með útlánavexti og skuldsetningu einkageirans; eignamörkuðum; stöðu fjármálafyrirtækja, s.s. er varðar eigið fé, laust fé, gjalddagamisræmi og gjaldmiðlamisvægi; skuldbindingum með hliðsjón af samþjöppun og krosseignatengslum; skaðlegum hvötum og freistnivanda í fjármálakerfinu, einkum hjá kerfislega mikilvægum stofnunum; fjármagnsflæði til og frá landinu; og virkni fjármálainnviða.

Fjöldi mælikvarða liggur til grundvallar matinu hverju sinni og eru þeir að jafnaði birtir opinberlega í riti Seðlabankans Fjármálastöðugleika. Við matið er horft til þeirrar heildarmyndar sem mælikvarðarnir sýna, en vægi hvers og eins mælikvarða er breytilegt frá einum tíma til annars. Vægið ræðst af því hvaða áhættuþættir eru ráðandi hverju sinni og hvaða mælikvarðar lýsa áhættunni best.
Ef einhverjir þessara áhættuþátta þróast með þeim hætti að fjármálastöðugleika stafi ógn af er það á ábyrgð stjórnvalda að grípa til aðgerða.

Viðbrögð við kerfisáhættu og samhæfing viðbragðsáætlana

Stjórnvöld sem fara með málefni fjármálastöðugleika bera ábyrgð á því að umgjörð fjármálakerfisins og þær kröfur sem gerðar eru til þess séu í samræmi við þessa stefnu.

Seðlabankinn hefur víðtækar heimildir til að auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins og til að bregðast við ef fjármálastöðugleika er ógnað. Samkvæmt lögum tekur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands ákvarðanir um beitingu þjóðhagsvarúðartækja í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika.

Þegar fjármálastöðugleika er ógnað eða hætta er á atburðum sem geta valdið umtalsverðum smitáhrifum eða tjóni á fjármálamarkaði gegnir fjármálastöðugleikaráð samræmingarhlutverki um aðkomu stjórnvalda. Seðlabankanum er skylt að upplýsa fjármála- og efnahagsráðherra telji bankinn að þær aðstæður hafi skapast. Fjármálastöðugleikaráð er þó ekki bundið af því að slík tilkynning berist heldur ber því einnig að leggja sjálfstætt mat á hvort fjármálastöðugleika sé ógnað.

Seðlabanka Íslands ber að bregðast tímanlega við rekstrarerfiðleikum hjá einstaka fjármálafyrirtækjum, í samræmi við fyrirliggjandi endurbótaáætlanir. Teljist fjármálafyrirtæki á fallanda fæti kemur til skila- eða slitameðferðar í samræmi við ákvarðanir um aðgerðir af hálfu skilavalds Seðlabanka Íslands. Ákvarðanir skilavalds sem hafa bein áhrif á ríkissjóð eða kerfislæg áhrif eru teknar að undangengnu samþykki fjármála- og efnahagsráðherra.

Mat á árangri

Tilgangur stefnumótunar á sviði fjármálastöðugleika er að móta framtíðarsýn, setja markmið og skilgreina aðgerðir til að ná þeim. Nauðsynlegt er að mæla árangur aðgerðanna. Fjármálastöðugleikaráði ber að meta reglulega árangur af beitingu þjóðhagsvarúðartækja og verður matið nýtt til að varpa ljósi á hvernig stjórnvöldum miðar að settu marki.

Síðast uppfært: 20.10.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum