Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 4/2018

Beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 613/2017.

Hinn 6. nóvember 2018 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 4/2018:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 613/2017

Elsa Bjartmarsdóttir

gegn

Landsbankanum hf.

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

 1. Beiðni um endurupptöku
  1. Með erindi, dagsettu 12. júní 2018, fór Elsa Bjartmarsdóttir þess á leit að hæstaréttarmál nr. 613/2017, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 24. maí 2018, yrði endurupptekið.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Eiríkur Jónsson og Gizur Bergsteinsson.
 2. Málsatvik
  1. Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 613/2017 var Landsbankinn hf. (L hf.) sýknaður af kröfu endurupptökubeiðanda um að viðurkennt yrði að lán sem hún tók hjá Landsbanka Íslands hf. (LÍ hf.), forvera L hf. samkvæmt veðskuldabréfi hefði verið í íslenskum krónum og bundið óheimilli gengistryggingu í skilningi þágildandi 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
  2. Með dóminum var dómur héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3903/2016, sem kveðinn var upp þann 17. maí 2017, staðfestur.
 3. Grundvöllur beiðni
  1. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að héraðsdómarinn, Lárentsínus Kristjánsson, hafi verið vanhæfur til að dæma í máli endurupptökubeiðanda. Bendir endurupptökubeiðandi á að þann 17. maí 2018, sama dag og mál nr. 613/2017 var flutt í Hæstarétti, hafi rétturinn, í málinu nr. 752/2017, ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem dómarinn var talinn hafa verið vanhæfur til að dæma í máli L hf. vegna fyrri starfa sinna.
  2. Endurupptökubeiðandi byggir á, að því leyti sem snýr að vanhæfi dómarans, að atvik í þessum tveimur málum séu að öllu leyti sambærileg.
  3. Telur endurupptökubeiðandi sig ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar af óvilhöllum dómara þegar málið var rekið fyrir héraðsdómi, sem sé í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (stjskr.) og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE).
  4. Samkvæmt framangreindu telur endurupptökubeiðandi að öll skilyrði 193. gr., sbr. 191. gr., laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 séu uppfyllt og hefðu málsatvik að þessu leyti verið réttilega í ljós leidd, hefði Hæstiréttur ómerkt dóm héraðdóms með eða án kröfu.
  5. Í tölvupósti frá endurupptökubeiðanda þann 5. júlí 2018 kemur fram að við meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hafi endurupptökubeiðanda ekki verið ljóst hver yrði dómari málsins fyrr en síðdegis daginn fyrir flutning málsins. Endurupptökubeiðandi hafi komið á framfæri mótmælum sínum við lögmann sinn við setu dómarans í málinu vegna tengsla hans við LÍ hf. Endurupptökubeiðandi telur að lögmaður sinn hafi ekkert aðhafst hvað þennan þátt varðar þar sem hann hafi talið að dómarinn væri ekki vanhæfur. Vegna þessa aðgerðarleysis lögmannsins hafi endurupptökubeiðandi ráðið sér annan lögmann til að áfrýja málinu til Hæstaréttar.
 4. Viðhorf gagnaðila
  1. Í greinargerð L hf., dagsettri 24. ágúst 2018, er byggt á því að skilyrði endurupptöku samkvæmt 193. gr., sbr. 191. gr., laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt og því beri að hafna beiðninni.
  2. Byggir L hf. á því að dómari málsins í héraði hafi ekki verið vanhæfur í skilningi laga um meðferð einkamála. Ekki sé hægt að leggja að jöfnu málsatvik í dómi Hæstaréttar í máli nr. 752/2017 annars vegar og í máli nr. 613/2017 hins vegar.
  3. Í hæstaréttarmálinu nr. 752/2017 hafi atvik verið með þeim hætti að L hf. hafi höfðað mál á hendur skuldara, til heimtu skuldar samkvæmt tveimur lánssamningum sem skuldarinn hafi gert við forvera bankans, LÍ hf. Skuldarinn hafi tekið til varna í málinu og reist sýknu- og lækkunarkröfu sína m.a. á þeirri málsástæðu að starfsmenn LÍ hf. hafi á sínum tíma veitt honum ófullnægjandi ráðgjöf.
  4. Áður en til dómsmálsins hafi komið hafi skuldarinn lýst kröfu um skuldajöfnuð við slitameðferð LÍ hf. við kröfur vegna sömu lánssamninga á grundvelli skaðabótakröfu sem hann hafi talið sig eiga vegna ófullnægjandi ráðgjafar starfsmanna LÍ hf. Þeirri kröfu hafi skilanefnd LÍ hf. hafnað og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn hafi verið upp þann 9. apríl 2014, hafi kröfum skuldarans verið vísað frá dómi.
  5. Þann 18. ágúst 2016 hafi L hf. höfðað mál til innheimtu skuldarinnar og Lárentsínus Kristjánsson verið dómari í málinu, eins og fyrr segir. Málið hafi lokið með dómi, uppkveðnum þann 26. október 2017, þar sem skuldari hafi verið dæmdur til greiðslu skuldarinnar. Af hálfu skuldarans hafi dómi héraðsdóms verið áfrýjað til Hæstaréttar þar sem það hafi fengið númerið 752/2017.
  6. Fyrir Hæstarétti hafi skuldarinn byggt á því að héraðsdómarinn Lárentsínus Kristjánsson hefði verið vanhæfur til að fara með og dæma héraðsdómsmálið vegna setu sinnar í skilanefnd LÍ hf. á tímabilinu október 2008 til ársloka 2011, þar af sem formaður hennar frá júní 2009. Af framangreindu megi ráða að dómarinn hafi setið í skilanefnd LÍ hf. á þeim tíma sem nefndin hafi tekið afstöðu til lýstrar kröfu skuldarans og hafnað henni. Dómarinn hafi því sjálfur tekið afstöðu til þeirra málsástæðna skuldarans er lutu að ófullnægjandi ráðgjöf starfsmanna bankans, áður en málið kom til kasta hans sem héraðdómara.
  7. L hf. telur að framangreint atriði hafi vegið þyngst og nægt, eitt og sér, til þess að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að dómarinn hafi verið vanhæfur til að fara með málið á grundvelli g. liðar 5. gr. laga um meðferð einkamála. Telur L hf. að tilvísun Hæstaréttar til þess að dómarinn hafi jafnframt setið í bankaráði L hf. á árunum 2010 til 2011, og sem varamaður þar áður, hafi ekki vegið þungt og raunar haft takmarkaða þýðingu. Eins og atvikum hafi verið háttað hefði það atriði, eitt og sér, væntanlega ekki getað leitt til þeirrar niðurstöðu að héraðsdómarinn teldist vanhæfur.
  8. L hf. vísar í þessu sambandi í fyrsta lagi til þess að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 752/2017 sé í engu vísað til þess að bankaráð L hf. hafi á þeim tíma er dómarinn sat í bankaráði tekið einhverja afstöðu til krafna eða málsástæðna sem skuldarinn hafði uppi eða að öðru leyti haft einhverja aðkomu að málinu eða málefnum skuldarans. Í dómi Hæstaréttar sé eingöngu vísað til þess sem að framan greinir, þ.e. að í málinu hafi skuldari haldið fram sömu málsástæðum og hann gerði fyrir skilanefnd LÍ hf. á þeim tíma sem dómarinn átti þar sæti. Í öðru lagi vísar L hf. til þess að störf þeirra sem hafi átt sæti í skilanefndum gömlu viðskiptabankanna, þ.á m. LÍ hf., séu eðlisólík störfum þeirra er sitji í stjórnum nýju viðskiptabankanna, þ.á m. bankaráði L hf. Eigi þetta bæði við um aðkomu að einstaka málum og endanlega ákvarðanatöku. Beri í þessum efnum að horfa m.a. til þess að hlutverk bankaráðs L hf. sé að hafa yfirumsjón og eftirlit með starfsemi bankans, móta almenna stefnu og annast um að skipulag og starfsemi bankans sé jafnan í réttu horfi. Hlutverk bankaráðs sé því almenns eðlis en inn á borð ráðsins komi að jafnaði ekki einstök mál sem séu til meðferðar hjá hinum ýmsu deildum bankans eða sem varði einstaka viðskipti hans. Að sama skapi sé það ekki hlutverk bankaráðs að taka afstöðu til hvers konar krafna sem kunni að vera beint að bankanum eða einstakra málsástæðna í því sambandi.
  9. Í hæstaréttarmálinu nr. 613/2017 hafi atvik verið með þeim hætti að endurupptökubeiðandi hafi höfðað mál á hendur L hf. til viðurkenningar á því að lán sem hún tók hjá LÍ hf., hafi verið í íslenskum krónum og bundið óheimilli gengistryggingu. Um hafi verið að ræða samsvarandi ágreining, og bornar hafi verið fram samsvarandi málsástæður af hálfu aðila, og í fjölmörgum öðrum dómum um sama málefni, þ.e. þegar lánsfjárhæð hafi verið greidd á gjaldeyrisreikninga lántaka, sjá t.d. Hrd. 66/2012, Hrd. 337/2013, Hrd. 90/2014, Hrd. 409/2014, Hrd. 558/2014 og Hrd. 262/2017, eða þegar fjárhæð hafi verið tiltekin í viðaukum við lánssamning, sbr. Hrd. 137/2016. Endurupptökubeiðandi hafi ekki lýst kröfu af einhverju tagi fyrir skilanefnd LÍ hf. né hafi mál hennar komið að öðru leyti til kasta nefndarinnar. Að mati L hf. sé atvikum þess máls þannig háttað að seta dómarans í skilanefnd LÍ hf. geti ekki haft neina þýðingu við mat á meintu vanhæfi hans. Hvað varðar setu hans í bankaráði L hf. á árunum 2010 til 2011, og sem varamaður um skeið fyrir þann tíma, sé atvikum málsins þannig háttað að bankaráð hafi enga aðkomu átt að máli endurupptökubeiðanda á þeim tíma sem dómarinn sat í bankaráði. Því telur L hf. að ekkert liggi fyrir um að dómarinn hafi, áður en málið kom til kasta hans sem héraðdómara, tekið afstöðu til máls endurupptökubeiðanda eða krafna og málsástæðna í því sambandi, svo sem gagnaðili telur að hafi ráðið úrslitum eða haft þýðingu í hæstaréttarmáli nr. 752/2017.
  10. Gagnaðili telur með vísan til framangreinds að bersýnilegur munur sé á málsatvikumannars vegar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 752/2017 og hins vegar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 613/2017, sem krafist er endurupptöku á. Því til stuðnings telur gagnaðili ekki unnt að styðjast eingöngu við niðurstöðu Hæstaréttar um vanhæfi dómarans í máli nr. 752/2017, líkt og gert er í endurupptökubeiðni. Að öðru leyti sé í endurupptökubeiðni ekki vísað til neinna þeirra atvika, sem hafi ekki áður verið nægilega leidd í ljós, eða nýrra gagna, sem ættu að leiða til endurupptöku málsins. Né heldur mæli önnur atvik með því að fallist sé á endurupptökubeiðni. L hf. telur því að skilyrði 193. gr., sbr. 191. gr., laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt og því beri að hafna endurupptökubeiðni.
 5. Frekari athugasemdir endurupptökubeiðanda
  1. Endurupptökunefnd sendi endurupptökubeiðanda afrit af greinargerð gagnaðila þann 12. september sl. þar sem henni var gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frestur var veittur til 26. september sl.
  2. Endurupptökunefnd barst tölvupóstur frá endurupptökubeiðanda þann 26. september sl. þar sem hún óskaði eftir frekari fresti til að koma með athugasemdir við greinargerð gagnaðila sökum þess að henni hafi ekki borist bréf endurupptökunefndar fyrr en þennan sama dag.
  3. Þann 16. október sl. bárust endurupptökunefnd frekari athugasemdir endurupptökubeiðanda. Endurupptökubeiðandi mótmælir þeim sjónarmiðum sem koma fram í greinargerð gagnaðila á þeim grundvelli að flest þeirra sjónarmiða sem koma þar fram varði efni málsins, fremur en það formsatriði sem endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á varðandi ætlað vanhæfi héraðsdómarans. Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína, burtséð frá málatilbúnaði gagnaðila, á að dómarinn hafi verið vanhæfur til þess að fara með málið vegna fyrri tengsla hans við LÍ hf.
  4. Endurupptökubeiðandi byggir á því að dómarinn hafi verið starfsmaður LBI ehf. sem hafi haldið utan um eftirstöðvar LÍ hf. á sömu kennitölu á því tímabili sem hér um ræðir og á hluta þess tímabils hafi hann gegnt stöðu formanns skilanefndar hins fallna banka LÍ hf. sem síðar varð LBI ehf. Þannig hafi hann verið nátengdur hagsmunum þess banka sem annaðist endurheimtu lánasafna, þar á meðal þess láns sem ágreiningur dómsmálsins sem endurupptökubeiðandi óskar nú endurupptöku á lýtur að. Vegna þessa telur endurupptökubeiðandi að dómarinn hafi verið vanhæfur til þess að hlutast til um umrætt mál, þar sem reyndi á lögmæti láns sem LÍ hf. veitti.
  5. Endurupptökubeiðandi byggir endurupptökubeiðni sína alfarið á fyrrnefndum formsatriðum og hafnar því að umfjöllun gagnaðila um efnisatriði málsins geti haft einhverja þýðingu fyrir úrlausn á fyrirliggjandi endurupptökubeiðni.
  6. Endurupptökubeiðandi ítrekar beiðni sína á þeim grundvelli að hún telji að sú málsmeðferð sem hún hlaut fyrir hlutaðeigandi dómstólum, hafi ekki samrýmst 70. gr. stjskr. og 6. gr. MSE.
 6. Niðurstaða
 1. Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Samkvæmt 193. gr. laga um meðferð einkamála getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að mál sem dæmt hefur verið í Landsrétti eða Hæstarétti verði tekið til nýrrar meðferðar ef skilyrðum ákvæðis 191. gr. laga um meðferð einkamála er fullnægt. Í 1. mgr. 192. gr. laga um meðferð einkamála segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.
 2. Skilyrði 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:
  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
 3. Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.
 4. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að samkvæmt dómi í hæstaréttarmáli nr. 752/2017, sem dæmt var í Hæstarétti 17. maí 2018, hafi dómarinn sem dæmdi mál endurupptökubeiðanda í héraði verið vanhæfur til að dæma í máli Lhf. vegna fyrri starfa sinna. Að því leyti er snúi að vanhæfi dómara séu atvik í þessum tveimur málum að öllu leyti sambærileg og ef málsatvik að þessu leyti hefðu verið réttilega í ljós leidd hefði Hæstiréttur augljóslega ómerkt héraðsdóm með eða án kröfu. Endurupptökubeiðandi hafi því ekki fengið málsmeðferð af óvilhöllum dómara og málið lúti að stórfelldum hagsmunum hennar.
 5. Endurupptökunefnd getur ekki fallist á að atvik í fyrrnefndum tveimur dómum séu að öllu leyti sambærileg að því er varðar hæfi dómara. Í hæstaréttarmáli nr. 752/2017 lá fyrir að héraðsdómarinn hafði verið formaður skilanefndar LÍ hf. sem hafði hafnað kröfu skuldara er byggði á sömu málsástæðum og hafðar voru uppi í dómsmálinu og lutu að ófullnægjandi ráðgjöf bankans. Þar sem dómarinn hafði þegar tekið afstöðu til málsástæðna skuldarans var ljóst að draga mátti með réttu í efa óhlutdrægni hans við úrlausn málsins.
 6. Í máli endurupptökubeiðanda var slíkri aðstöðu ekki til að heilsa. Jafnvel þótt héraðsdómarinn hafi setið í bankaráði L hf. um tíma bendir ekkert til þess að hann hafi tekið afstöðu til þess ágreinings sem uppi var í málinu og laut að því hvort nánar tiltekið veðskuldabréf teldist hafa verið í íslenskum krónum.
 7. Þrátt fyrir að Hæstiréttur vísi m.a. til setu dómarans í bankaráði L hf. í hæstaréttarmáli nr. 752/2017 verður þeirri setu einni og sér ekki jafnað til þeirrar aðstöðu sem uppi var í sama máli, að héraðsdómari hafði farið fyrir skilanefnd sem hafnað hafði þeim málsástæðum sem aðili máls hafði uppi í dómsmálinu. Af dóminum í hæstaréttarmáli nr. 752/2017 verður að mati endurupptökunefndar því ekki dregin ályktun í þá veru að umrædd seta héraðsdómarans í bankaráði leiði ein og sér til vanhæfis sem ómerkingu hefði átt að varða í máli endurupptökubeiðanda.
 8. Í öllu falliverður ekki talið að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar eða að sterkar líkur hafi verið leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. a- og b- lið 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála. Skortir samkvæmt þessu á að skilyrðum 1. mgr. 193. gr., sbr. 1. mgr. 191. gr., laganna sé fullnægt. Verður því að hafna kröfu endurupptökubeiðanda þegar af þessari ástæðu.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Elsu Bjartmarsdóttur um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 613/2017, sem dómur var kveðinn upp í þann 24. maí 2018, er hafnað.

 

 

Haukur Örn Birgisson formaður

 

 

Eiríkur Jónsson

 

 

Gizur Bergsteinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira