Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 101/2019 Úrskurður 6. nóvember 2019

Mál nr. 101/2019                   Endurupptökubeiðni

Eiginnafn:       Marzellíus (kk.)

 

 

 

Hinn 6. nóvember 2019 tekur mannanafnanefnd fyrir beiðni um endurupptöku máls 63/2008 Marzellíus (kk.) en erindið barst nefndinni 18. október.

Með úrskurði mannanafnanefndar frá 12. nóvember 2008 var umsókn um eiginnafnið Marzellíus (kk.) hafnað (mál 63/2008). Málið var endurupptekið 28. apríl 2010 og beiðninni þá aftur hafnað (mál 27/2010).

Niðurstaða mannanafnanefndar í máli 63/2008 var á þá leið að nafnið Marzellíus uppfyllti ekki skilyrði 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996, sem segir að nafn skuli „ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.“ Nefndin benti á að bókstafurinn z væri ekki hluti af íslensku stafrófi skv. þágildandi ritreglum íslensks máls, sbr. auglýsingu menntamálaráðuneytisins um íslenska stafsetningu, nr. 132/1974, með síðari breytingum. Einnig taldi nefndin að ekki væri hefð fyrir rithættinum Marzellíus.

Úrskurðarbeiðendur andmæltu þessari túlkun fyrrgreinds lagaákvæðis og fóru fram á endurupptöku málsins. Þeir bentu á að í e. lið 3. gr. fyrrnefndrar auglýsingar um íslenska stafsetningu segði:

            Í sérnöfnum, erlendum að uppruna, má rita z, t.d. Zóphanías, Zakarías, Zimsen.

Mannanafnanefnd tók málið upp að nýju 28. apríl 2010 (mál 27/2010) en mótmælti því að e. lið 3. gr. þágildandi ritreglna bæri að túlka á þá leið að sérhvert sérnafn, erlent að uppruna, mætti rita með z. Umrætt atriði reglnanna bæri að túlka þannig að átt væri við mannanöfn sem hefð væri fyrir að rita með z í íslensku máli. Það gilti ekki um nafnið Marzellíus.

E. liður 3. gr. auglýsingarinnar um ritreglur er í kafla sem fjallar um afnám z og hefur mannanafnanefnd jafnan túlkað þennan lið sem áréttingu þess að ekki þyrfti að breyta rithætti sérnafna sem þegar höfðu unnið sér hefð í íslensku máli þegar z var afnumin úr íslensku stafrófi. Það virðist enda langsótt að ætlunin með ákvæðinu hafi verið að sérhvert mannanafn af erlendum uppruna mætti rita með z, t.d. rita Zören og Zoffía fyrir Sören og Soffía. Jafnframt virðist ljóst af greinargerð með mannanafnalögum, nr. 45/1996, að löggjafinn sá ekki fyrir sér að ritreglurnar væru túlkaðar á þennan hátt, þ.e. þannig að ritun mannanafna með z væri almennt

 

 

leyfð en ekki t.d. ritun með bókstöfunum c og w eða samstöfum á borð við th og ph, sem þó er hefð fyrir að rita í sumum íslenskum nöfnum.

Í dómi Hæstaréttar frá 6. desember 2018 í máli nr. 857/2017 var ofangreindri túlkun mannanafnanefndar á e. lið 3. gr. auglýsingarinnar um íslenska stafsetningu (nr. 132/1974, með síðari breytingum) hafnað. Þvert á móti taldi Hæstiréttur að á meðan þessi auglýsing var í gildi hefði verið „í fullu samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að nota bókstafinn „z“ við ritun sérhvers eiginnafns af erlendum uppruna, sem hlotið hefði eða hljóta myndi á lögmæltan hátt viðurkenningu sem íslenskt nafn, enda [hefði] framangreint ákvæði í e. lið 3. gr. auglýsingar nr. 132/1974 ekki [verið] bundið við nöfn, sem svo var ástatt um við birtingu hennar.“ Þegar nafn er fært á mannanafnaskrá felst í því viðurkenning þess sem íslensks nafns. Þessi orð Hæstaréttar fela í sér að á meðan auglýsingin um ritreglur frá 1974 var í gildi hefði ritun með z ekki átt að koma í veg fyrir viðurkenningu nafns sem íslensks ef það uppfyllti að öðru leyti skilyrði mannanafnalaga.

Þegar úrskurðir mannanafnanefndar í máli 63/2008 og máli 27/2010 voru kveðnir upp var í gildi auglýsing um íslenska stafsetningu, nr. 132/1974, með síðari breytingum. Ástæða þess að nefndin taldi að hafna bæri umsókn um eiginnafnið Marzellíus var sú ein að nafnið væri ritað með z sem bryti í bág við ritreglur íslensks máls. Eins og fyrr segir komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í dómi 6. desember sl. í máli nr. 857/2017 að sú túlkun þágildandi ritreglna, sem fyrrnefndir úrskurðir mannanafnanefndar byggðu á, væri röng og ekki væri unnt að hafna nafni af erlendum uppruna á þeirri forsendu einni að það væri ritað með bókstafnum z.  Þar af leiðandi telur mannanafnanefnd skilyrði fyrir endurupptöku málsins vera uppfyllt og kveður upp svohljóðandi úrskurð í málinu sem hefur fengið málsnúmerið 101/2019:

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði 5. gr. laga, nr. 45/1996, um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  • Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  • Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  • Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  • Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

Núgildandi ritreglur íslensks máls er að finna í auglýsingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um íslenskar ritreglur, nr. 695/2016, frá 6. júní 2016. Með henni féll úr gildi auglýsing um íslenska stafsetningu, nr. 132/1974, með síðari breytingum. Í þessum úrskurði verður eigi að síður miðað við eldri ritreglurnar enda giltu þær þegar mannanafnanefnd úrskurðaði í máli 63/2008 og máli 27/2010.

Ritháttur eiginnafnsins Marzellíus (kk.) er í samræmi við íslenskar ritreglur sem voru í gildi þegar umsókn barst samkvæmt því sem að framan er rakið. Þá tekur eiginnafnið  íslenskri beygingu í eignarfalli, Marzellíusar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Marzellíus (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum